139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:29]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa staðfest það í yfirlýsingu sinni áðan að tölvudeildin telur að ekkert hafi verið tekið út, afritað eða unnið með gögn þingsins sem er aðalatriði þessa máls eins og ég nefndi í morgun. Það var kallað eftir því áðan að ég réttlætti það sem ég sagði um storm í vatnsglasi eða alvarleika þessa máls. Ég get ekki réttlætt það að engin raunveruleg lögreglurannsókn fór fram á þessum málum, hvorki af hálfu lögreglunnar né af hálfu þingsins, og ég mun ekki gera það. Og ég get ekki réttlætt það að ákvörðun var tekin um það að skýra þingheimi ekki frá þessum fundi og heldur ekki einu sinni forsætisnefnd um þennan atburð. Ég vil taka undir orð manna hér um að hvort tveggja er forkastanlegt. Það hefði átt að fara fram raunveruleg rannsókn á málinu og það hefði átt að skýra þingheimi frá stöðunni. En ég mun ekki réttlæta það og ætla ekki að réttlæta það að ókunn tölva hafi verið tengd við tölvukerfi Alþingis í herbergi þingmanns úti í Austurstræti, það mun ég ekki gera. En yfirlýsingar um alvarleika þessa máls byggja á getgátum einum meðan engin rannsókn hefur farið fram. Og málatilbúnaður Morgunblaðsins í morgun (Gripið fram í: … forseta þingsins.) er til þess eins fallinn að koma höggi á og kasta rýrð á einstaka þingmenn, jafnvel þingflokka, (Gripið fram í.) og kannski ekki síst óvin bandarískra hernaðaryfirvalda númer eitt nú um mundir, (Gripið fram í: Góðan daginn.) upplýsingavefinn Wikileaks. Góðan daginn, hv. þingmaður, það kann nú kannski að vera. [Frammíköll í þingsal.] Og þær ályktanir sem menn eru að draga (Forseti hringir.) af þessum getgátum sínum eru að mínu viti ósæmilegar dylgjur. En málið er komið í réttan farveg, ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt og ég fagna því að það muni fara fram raunveruleg rannsókn á því sem hefði átt að gera fyrir heilu ári.