139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:32]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er rætt af djúpri alvöru um alvarlegt mál, sem sagt það að aðskotahlutur skuli hafa fundist í húsakynnum Alþingis. Fyrir mitt leyti er ég afskaplega feginn því að þessi aðskotahlutur skuli hafa verið tölva en ekki eitthvað annað. Ég held að það sé dæmigert fyrir þá leyndarhyggju sem hér ríkir að forseti þingsins skuli hafa ákveðið strax í upphafi að þetta væri svo mikið leyndarmál að engum mætti segja frá því nema forsætisráðherra lýðveldisins. Ég held að við ættum að slaka aðeins á í sambandi við þessar leyndarkröfur okkar því að þó að ugglaust séu einhver gögn í tölvum þings og þingmanna held ég að það yrði ekki héraðsbrestur að því t.d. þó að þau gögn sem eru í minni tölvu lækju út. Ég þekki engin þau leyndarmál sem ógna öryggi ríkisins.

Öryggi þingsins er mikið alvörumál og það ber að efla. Ég held að það væri hyggilegt að sérstök þingnefnd kannaði málavöxtu þessa máls, viðbrögð forseta og lögreglurannsókn og færi yfir stöðuna án þess að komast að þeirri niðurstöðu að við þyrftum að setja hér upp margfaldar gaddavírsgirðingar kringum byggingar og tölvugögn.