139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir ágæta skýrslu og ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað fyrir því að málið sé komið í viðunandi farveg. Ég vil draga fram að í þessari umræðu eru menn sammála um, að mér heyrist, flestir þingmenn, að þetta mál beri að rannsaka frá upphafi til enda.

Það er einfaldlega ekki viðunandi að þingmenn, sumir hverjir, reyni að gera minna úr þessu máli en það er. Eins og ég upplifi það er verið að ráðast á starfsvettvang minn ef satt reynist. Það er agalegt ef það er rétt að einhverjir aðilar hafi reynt, og komist inn í vistarverur þingsins, að taka viðkvæmar upplýsingar sem við þingmenn höfum. Fólk leitar til okkar, jafnvel með sín viðkvæmustu mál. Og ef það er staðreynd að þau gögn séu kannski komin eitthvert annað, ef sú rannsókn leiðir það í ljós, er það háalvarlegt mál. Og sú leynd sem því miður hefur verið yfir þessu máli, að engum þingmanni, fyrir utan forsætisráðherra, hafi verið gerð grein fyrir því að þessi atburður gerðist í febrúar á síðasta ári, er einfaldlega ekki viðunandi. Það að ríkið hafi ekki farið í kjölfar þess í allsherjarendurskoðun á öryggisreglum sínum er snertir m.a. starfsumhverfi Hæstaréttar, ráðuneyta og við getum talið fleiri, vegna þess að við erum að upplifa að til eru samtök sem með skipulögðum hætti reyna að komast yfir viðkvæmar upplýsingar og opinbera þær. Ég kæri mig ekki um það að upplýsingar gagnvart fólki sem hefur leitað til mín með mjög mikilvæg mál birtist á síðum dagblaða í fyrramálið og maður heyri það fyrst þá. Þetta er einfaldlega ekki viðunandi og ég fer fram á það að ítarleg rannsókn fari fram á þessu viðkvæma máli því að hér má engin leynd eða efi ríkja um hvað (Forseti hringir.) er rétt í þessu máli.