139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[15:38]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjöleignarhús sem eru settar fram fyrst og fremst vegna ákvæða um leiðsögu- og hjálparhunda en fjalla þó einnig almennt um hunda- og kattahald í fjöleignarhúsum. Til þessa hafa sömu lög gilt um leiðsögu- og hjálparhunda í fjölbýli og gilda um hundahald almennt. Því hefur fólk sem þarf á slíkum hundum að halda þurft samþykki allra íbúa viðkomandi húss og andstaða eins íbúa nægt til að hindra þessa mikilvægu aðstoð hins fatlaða einstaklings.

Í frumvarpinu er kveðið á um sérstaka heimild fyrir fólk með fötlun til að halda leiðsögu- og hjálparhund í fjöleignarhúsum. Með breytingunni verður því heimilt að halda leiðsögu- og hjálparhund í íbúð sinni án þess að fyrir liggi samþykki annarra íbúðareigenda í húsinu. Fortakslaust neitunarvald annarra íbúðareigenda er þannig afnumið og réttur fatlaðs fólks settur í forgang.

Samkvæmt frumvarpinu skal þinglýsa yfirlýsingu um það ef leiðsögu- og hjálparhundur er í fjölbýlishúsi og vekja athygli á því í yfirlýsingu húsfélags við sölu. Einnig eru fyrirmæli um hvernig tekið skuli á málum þegar leiðsögu- og hjálparhundur veldur ofnæmi annars íbúa en líkur á slíkum vanda eru ekki taldar miklar þar sem alvarlegt hundaofnæmi er tiltölulega fátítt.

Með frumvarpinu er staðfest sú meginregla að hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi sé háð samþykki allra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang. Aftur á móti þarf ekki samþykki annarra eigenda fyrir hunda- og kattahaldi þegar hvorki er um sameiginlegan stigagang né inngang að ræða. Þá eru einnig sett nánari fyrirmæli um skyldu til að afla leyfis til sveitarfélags til hunda- og kattahalds og jafnframt eru heimildir húsfélags til að setja reglur um hunda- og kattahald í húsinu og til að banna það ef það hefur í för með sér ónæði fyrir aðra íbúa.

Auk þess eru lagðar til sameiginlegar reglur sem eiga bæði við um hunda- og kattahald þegar samþykki allra liggur fyrir og þegar það er frjálst þar sem hunda- og kattahaldi eru settar ýmsar skorður af tilliti til þeirra sem í húsinu búa og kveðið á um úrræði við brotum eiganda dýrs á skyldum sínum gagnvart öðrum íbúum.

Virðulegur forseti. Ég hef reifað meginatriði þessa stutta frumvarps og þær breytingar á lögum um fjöleignarhús sem lagðar eru til. Það mun síðar fara til frekari umfjöllunar hjá hv. félags- og tryggingamálanefnd. Að mínu áliti eru þetta ekki stórvægilegar breytingar en engu að síður mikilvægar þar sem þær fjalla um mikilvæga réttarbót fyrir fatlað fólk sem þarf á leiðsögu- eða hjálparhundum að halda. Það er ástæða til að taka fram að hér er ekki um að ræða mjög mörg tilfelli miðað við þær 100 þús. íbúðir sem eru í landinu. Hingað til hafa sennilega verið um fjórir til sex blindrahundar. Við erum að tala hér um sárafá tilfelli en alls óviðunandi ef fólk hrekst á milli, jafnvel þegar það loksins fær tækifæri til að fá það mikilvæga hjálpartæki sem leiðsöguhundur er.

Aðrar breytingar í þessu frumvarpi eru til þess fallnar að skýra réttindi til hunda- og kattahalds, jafnt gagnvart eigendum dýranna og annarra íbúa ef óþægindi hljótast af dýrahaldinu.