139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[15:45]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið fram. Ég held að hér sé mikilvægt mál á ferðinni en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í atriði sem væntanlega telst vera 1. gr. d. í frumvarpinu, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé eigandi eða einhver í hans fjölskyldu með ofnæmi fyrir hundum á svo háu stigi að lyf megna ekki að gera sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhund bærilegt og læknisfræðileg gögn …“ o.s.frv., ég er að velta því fyrir mér, frú forseti, er hægt að skrifa það inn í lagatexta að einhver einstaklingur sem býr í húsi þar sem eru dýr verði að vera á lyfjum til að fá einhvers konar undanþágu frá meginmáli greinarinnar. Ég er að velta því fyrir mér og í raun og veru beinist spurningin til hæstv. ráðherra um það hvort menn í ráðuneytinu hafi velt þessu máli upp, t.d. gagnvart mannréttindalögfræðingum eða persónurétti þeirra einstaklinga sem þarna búa, þ.e. er beinlínis gert ráð fyrir því í lagafrumvarpinu að það sé skylda þessara einstaklinga að vera á lyfjum eða er hægt að skikka þá til að vera á lyfjum í einhvern tíma? Ég átta mig ekki á því.