139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[15:51]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu um hunda og ketti mikið en mig langar að koma upp og fagna þessu frumvarpi og gleðjast sérstaklega yfir því að verið sé að auka og tryggja rétt fólks til að búa á heimili sínu með hjálpar- og leiðsöguhunda og jafnframt að skýra reglur og einfalda og gera kannski sanngjarna fyrir aðra dýraeigendur.

Hér á landi hefur það verið landlæg skoðun að hundar eigi eiginlega bara heima í sveit en rannsóknir á eðli hundsins, tilurð hans og sögu, sem margar eru til, hundar hafa verið mikið rannsakaðir, sýna að hundurinn á eiginlega fyrst og fremst heima hjá manninum og það skiptir engu máli hvort það er í borg eða sveit. Hundar hafa marga sérstaka eiginleika og við eigum að nota þá mun meira sem hjálpar- og leiðsöguhunda eins og er víðast annars staðar og eins til aðstoðar lögreglu við störf sín, bæði fíkniefnaleit og sem varðhunda.

Á Íslandi hefur skort mikið á hundamenningu. Það er ákveðin einangrunarstefna með hunda á Íslandi. Margt fólk er hrætt við hunda og þeir eiga eiginlega helst hvorki að sjást né heyrast sem leiðir það af sér að þeir eru hafðir sér og þeir venjast ekki eðlilegri umgengni við fólk. Víða erlendis sér maður t.d. hunda bundna fyrir utan matvöruverslanir. Það er mjög óalgengt á Íslandi og þar sem hundar eru ekki eðlilegur hluti af daglegu sýnilegu lífi okkar og hluti af götumyndinni og borgarmenningunni, t.d. eru hundar hreinlega bannaðir á Laugaveginum, þá venst fólk ekki við þá, heldur áfram að vera hrætt við þá og hundarnir eru hálfhræddir við ókunnugt fólk líka. Þetta er einhver vítahringur sem við brjótum kannski ekki auðveldlega upp en mér finnst þó þetta frumvarp gott skref í áttina.