139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

mannanöfn.

378. mál
[15:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996. Með frumvarpinu er lagt til að beiðnir um breytingar á mannanöfnum verði allar afgreiddar á einum stað, þ.e. hjá Þjóðskrá Íslands en samkvæmt lögum um mannanöfn eru slíkar beiðnir ýmist afgreiddar af Þjóðskrá Íslands eða innanríkisráðuneytinu. Hefur það fyrirkomulag þótt flókið fyrir borgarann og algengt er að sótt sé um nafnabreytingar á röngum eyðublöðum eða á röngum stað sem síðan hefur kallað á framsendingar mála milli ráðuneytisins og Þjóðskrár. Hefur af þessu hlotist óhagræði bæði fyrir borgarann og stjórnsýsluna og er því eins og áður sagði lagt til að allar beiðnir um breytingar á mannanöfnum verði afgreiddar af Þjóðskrá Íslands. Rétt þykir þó að veita ráðherra áfram heimild til að veita þeim sem fær íslenskan ríkisborgararétt nafnbreytingu samhliða veitingu ríkisborgararéttar enda slíkt til hagræðis fyrir alla sem að málinu koma.

Hæstv. forseti. Frumvarpi þessu var dreift á Alþingi fyrir jól og í því gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2011. Í frumvarpinu er því talað um dómsmálaráðherra í stað innanríkisráðherra og vek ég athygli hv. allsherjarnefndar á þessum atriðum í frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.