139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:14]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka í upphafi hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og hlý orð í minn garð. Fyrst aðeins vegna Jóels litla tek ég undir hvatningu þingmannsins til innanríkisráðuneytisins og stjórnsýslunnar allrar um að ljúka þessu máli og koma litla drengnum og fjölskyldu hans fljótt og örugglega heim. Eins og þingmaðurinn sagði tengist það mál ekki beint þessari þingsályktunartillögu, þó að því leytinu til að þegar það kom upp varð ég enn sannfærðari um að við flutningsmenn þessarar tillögu værum á réttri braut í því að við ættum að heimila þetta á okkar forsendum. Það mundi koma í veg fyrir svona uppákomur, að svona vandræði yrðu.

Ég verð að viðurkenna að mér hefur þótt mjög undarlegt hvernig málið hefur tafist og ég leyfi mér að gagnrýna stjórnsýsluna fyrir það þótt ég viti eins og ég sagði áðan að þetta er ekki einfalt mál. En barnið er komið í heiminn. Þetta er gerður hlutur og við verðum þá að uppfylla skyldur annarra íslenskra laga um að veita íslenskum ríkisborgurum á erlendri grundu þau sjálfsögðu réttindi að koma þeim hingað til lands eins og vera ber. Það má ekki nota þetta dæmi sem eitthvert prófmál og blanda því inn í þau álitamál sem menn hafa kastað fram um staðgöngumæðrun vegna þess að þetta eru tvö aðskilin mál.

Um gagnrýni og þau álitamál (Forseti hringir.) sem hafa m.a. komið frá Læknafélaginu mun ég fjalla í síðara andsvari mínu.