139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:19]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir síðustu orð hv. þingmanns og er algjörlega sammála því að örvæntingu fólks sem getur ekki eignast barn en langar til þess eru engin takmörk sett. Þá er fólk tilbúið að leggja ýmislegt á sig eins og fram hefur komið að undanförnu í umræðunni, sérstaklega kannski þegar menn vita að það er til úrræði en þeim er ekki heimilt að nota það. Ég held að það sé einmitt það sem við þurfum að líta til. Tæknin er til staðar. Það eru einstaklingar tilbúnir til að leggja barnlausu fólki lið við að koma barni í heiminn. Tæknin er þarna, úrræðið er þarna, fólkið er þarna en við leyfum það ekki vegna þess að við höfum efasemdir um einhver atriði málsins sem hægt er að girða fyrir með lagasetningu. Ég er einfaldlega ósammála siðfræðiráði Læknafélags Íslands, t.d. þegar það hefur áhyggjur af, eins og segir í umsögn frá því, ýmsum sem málið varðar í viðkvæmri stöðu. Á það sérstaklega við um staðgöngumóðurina sjálfa en einnig um systkin og hugsanlega feður.

Systkinamálið er nákvæmlega sambærilegt og þegar staðgöngumóðir gengur með barn og ef um tæknifrjóvgun og ættleiðingar er að ræða þannig að við getum afgreitt það út af borðinu.

Varðandi staðgöngumóðurina og hugsanlega foreldra eru nákvæmlega þess vegna sett skýr skilyrði um að lagaramminn verði að vera skýr. Foreldrarnir og staðgöngumóðirin gera með sér bindandi samkomulag um það hvað gerist ef eitthvað kemur upp á á meðgöngunni, hvort sem er hjá foreldrunum eða staðgöngumóðurinni, sem breyta aðstæðum. Þá er skýrt kveðið á um (Forseti hringir.) hvað verður um barnið, hvernig á að bregðast við. Við leggjum til að það verði sett upp (Forseti hringir.) sérfræðingateymi sem hjálpi einstaklingum og þetta fari í ákveðið ferli. Ég held að það sé (Forseti hringir.) algjörlega hægt að vinna bug á öllum þessum álitamálum.