139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Það er aðeins einu við það að bæta. Sú umræða sem kallað var eftir að færi fram í samfélaginu á sínum tíma áður en hægt yrði að taka á þessum málum í lagasetningu hefur, eins og hefur verið bent á, farið fram jafnt og þétt með hléum á undanförnum árum og þroskast við hverja umræðu og er nú þannig gagnvart þjóðinni að 87% lýsa sig fylgjandi staðgöngumæðrun í nýrri könnun.

Aðeins var rætt hér áðan um siðfræðiráð Læknafélags Íslands og álit þess. Það er auðvitað mjög mikilvægt og skiptir öllu máli í þessum efnum eins og öðrum sem lúta að ákvörðunarvaldi kvenna yfir líkama sínum, þá er ég að tala um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, að gengið sé úr skugga um að tekin sé upplýst ákvörðun, hún sé ekki tekin vegna þrýstings frá föður eða eiginmanni, foreldrum eða fyrir annan utanaðkomandi þrýsting. Ég hef kynnst því í heilbrigðiskerfi okkar hvaða árangri við höfum náð í þeim efnum varðandi fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, þ.e. með félagsráðgjöf inni á sjúkrahúsum. Ég treysti íslensku heilbrigðiskerfi og félagskerfi fullkomlega til þess að setja sömu öryggiskröfur og net í þessum efnum.