139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er vissulega til umræðu mjög merkilegt mál. Það er rétt hjá flutningsmanni að það er mál sem við komumst ekki hjá að ræða. Ég ætla þó ekki að draga neina dul á að ég hef ekki myndað mér skoðun á málinu. Ég hef ekki komist að niðurstöðu í þessu máli. Flutningsmaður leggur mikla áherslu á að þetta sé þverpólitískt mál. Ég er hjartanlega sammála henni í því, en það þýðir ekki að fólk geti ekki komist að misjafnri og ólíkri niðurstöðu. Ég held að það skipti gífurlega miklu að í allri umræðu um málið verði litið til þess.

Flutningsmaður hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði sjálf frá því þegar hún kom að þessu máli fyrir tveimur árum síðan og var alls ekki viss. Ég held að það sé svo með margt fólk, það er alls ekki visst. Ég vil ekki gera lítið úr skoðanakönnunum sem teknar eru um mál af þessu tagi en ég tel heldur ekki rétt að gera of mikið úr þeim.

Þetta er mjög stórt mál. Það er mjög áríðandi að við tökum til þess afstöðu en ég held að við ættum ekki að flýta okkur of mikið. Þegar ég segi „flýta okkur of mikið“ er ég ekki að tala um að það eigi að taka mörg ár. Ég legg frekar til að þingheimur fái að melta málið en að reynt sé að keyra það áfram.

Frumvarpið er auðvitað lagt fram með öllum þeim varúðarráðstöfunum sem þurfa að vera ef slík lög verða innleidd, þ.e. að það sé alveg ljóst að staðgöngumæðrun sé eingöngu í velgjörðarskyni, að það sé ekki einhver þjónusta, ef ég má orða það þannig. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fór mjög vel yfir ýmis rök og varúðarráðstafanir sem þarf að hafa í huga varðandi staðgöngumæðrun, t.d. að konur fari ekki í slíkt út úr neyð, að þeim sé þröngvað til þess af eiginmönnum sínum eða vegna annarra erfiðra aðstæðna. Það þarf að passa það mjög vel undir öllum kringumstæðum.

Ég vil líka vekja athygli á því að starfshópur sá sem skipaður var og skilaði áliti í júní komst að niðurstöðu og mælti ekki með þessu. Það þarf að fara mjög vel í gegnum öll rök sem þar komu fram og auðvitað að gagnrýna þau og bæta við það sem tilefni er til í vinnu okkar á Alþingi.

Ég kom aðallega hér til þess að segja það hreint út að ég hef ekki gert upp hug minn í þessu máli. Ég tel heldur ekki skynsamlegt að keyra málið þannig áfram að í því sé einhver ein rétt skoðun og önnur röng. Við hljótum að mynda okkur skoðun hvert og eitt þótt ég geti ekki séð hvernig það getur verið byggt á hinum venjulegu pólitísku forsendum sem við vinnum yfirleitt út frá í þinginu.

Flutningsmaður benti á að það þyrfti að breyta öðrum lögum ef staðgöngumæðrun yrði leyfð. Hún nefndi lög um fæðingarorlof og annað, en það þarf náttúrlega að breyta barnalögum. Þetta er ekki heilbrigðismál í sjálfu sér, þetta er miklu meira en heilbrigðismál. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort það sé ekki rétt að tillagan fari til annarra nefnda í þinginu og þá t.d. allsherjarnefndar sem fæst við ættleiðingar og mál af því tagi. Ég teldi það mjög eðlilegt vegna þess að ég held að það þurfi að hugsa fyrir rétti ekki bara konunnar sem tekur að sér að ganga með barnið, það þarf að hugsa fyrir rétti foreldranna. Það þarf ekki síst — ekki síst — að hugsa um réttindi barnsins sem kemur í heiminn.