139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:56]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að leiðrétta sjálfa mig, ég held að þingmaðurinn hafi eitthvað misskilið skynsemiskommentið mitt áðan. Þegar ég nefndi að ég teldi þingmanninn vera skynsama og gæti komist að niðurstöðu var ég ekki að segja hvaða niðurstöðu hún ætti að komast að. Það sem ég benti á var að beðið er eftir niðurstöðu vegna þess að þeir sem þarna um ræðir hafa ekki endalausan tíma. Ég var hins vegar alls ekki að segja hv. þingmanni að hvaða skoðun hún ætti að komast, að hvaða niðurstöðu hún ætti að komast. Ég treysti henni fyllilega til að mynda sér sína skoðun sjálf. Hún þarf ekki í þessu máli sem frekar en í svo mörgum öðrum að vera nákvæmlega sú sama og mín. Ég veit það að við hv. þingmaður erum ekki alltaf sammála.

Ég legg mikla áherslu á að við vöndum okkur. Það er nákvæmlega það sem við eigum að gera. Gleymum því ekki að það er ekki í fyrsta sinn sem þingið tekur málið til umfjöllunar. Við höfum farið í gegnum þessa umræðu vegna breytinga á lögum um tæknifrjóvgun áður. Þá var talið að það þyrfti meiri umræðu í samfélaginu sem hefur orðið, eins og komið hefur fram. Það er mun meiri umræða sem orðið hefur nú á síðustu missirum en áður var.

Ég veit ekki hvort þetta er í síðasta sinn sem ég tek til máls um þetta efni. Seinast þegar ég leit á mælendaskrána voru ekki fleiri þar. Það kann þó að hafa breyst, mér sýnist það hafa breyst.

En vegna ummæla hv. þingmanns um að fleiri nefndir þingsins ættu að koma að því að skoða málið tel ég það sjálfsagt. Ég legg til að málinu verði vísað til heilbrigðisnefndar og að heilbrigðisnefnd taki um það ákvörðun til hvaða nefndar þingsins hún kýs að senda það til frekari umfjöllunar.