139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[17:09]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að heyra að konur sem eru alls óskyldar og þekkja ekki til væntanlegrar móður séu tilbúnar til að ganga með barn í velgjörðarskyni. Það er ánægjulegt til þess að vita að slíkir einstaklingar skuli finnast. Ég held hins vegar að við verðum að vera vakandi fyrir því að þar sem til eru konur sem eru tilbúnar til að ganga með barn annarra í velgjörðarskyni hljóta líka að vera til konur sem vilja gera það gegn greiðslu. Það væri blindni að halda að slíkt mundi ekki eiga sér stað, hvort sem það kæmi upp á yfirborðið eða ekki.

Ég veit að hugurinn er góður hjá hv. þingmanni og flutningsmönnum og ég er sannfærð um að það finnast konur sem eru tilbúnar til að gera þetta í velgjörðarskyni fyrir aðrar konur, vilja sem sé ganga með barn og gefa það svo. En ég held að við verðum að hafa augun opin og viðurkenna að hitt finnist líka.