139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

félagsleg aðstoð.

114. mál
[17:22]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð. Flutningsmenn að því frumvarpi eru, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Eygló Harðardóttir og Vigdís Hauksdóttir, þingkonur Framsóknarflokksins.

Við leggjum til breytingu á lögum um félagslega aðstoð sem hljóðar svo, með leyfi frú forseta:

„1. gr. Í stað fjárhæðarinnar „97.978“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: 113.944.“

Og að 5. gr. laganna muni orðast svo:

„Heimilt er að greiða umönnunargreiðslur, allt að 113.944 kr., maka elli- eða örorkulífeyrisþega, sem dvelst í heimahúsi, eða öðrum nákomnum lífeyrisþeganum sem annast lífeyrisþegann. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Í stuttu máli er tilgangur frumvarpsins sá að leiðrétta og rétta stöðu maka einstaklinga sem búa við mikil veikindi með því að hækka umönnunargreiðslur sem makinn eða nákominn aðili fær fyrir að annast hinn veika. Þróunin hefur verið sú að greiðslur til þeirra sem annast sína nánustu hafa dregist aftur úr almennri launaþróun. Nú er jafnvel þannig komið að aðstandendur sjúkra, segjum alzheimersjúklinga eða mikið veikra einstaklinga, sem geta ekki séð um sig sjálfir, geta ekki sinnt þeim vegna þess hversu lágar þessar greiðslur eru. Makinn neyðist jafnvel til þess að sækja sér aðra vinnu sem er betur launuð og getur þar af leiðandi ekki séð sínum nánasta farborða eða þjónustað hann á daginn. Viðkomandi verður þá að leggjast inn á hjúkrunarrými en við vitum að þeim hefur fækkað í kjölfar efnahagshrunsins. Margfalt meiri kostnaður leggst þá á heilbrigðisþjónustuna ef aðstandendur geta ekki annast hinn sjúka.

Frumvarpið er því fyrst og fremst lagt fram í ljósi mannúðarsjónarmiða. Ég held að það komi öllum best ef hinir sjúku gætu verið eins lengi í heimahúsi og mögulegt er í stað þess að þurfa að leggjast inn á stofnun. Ég vonast því til að þetta mál verði samþykkt, ekki síst í ljósi þess að nú er verið að fækka hjúkrunarrýmum vítt og breitt um landið. Með þessari leiðréttingu mundi hagkvæmni í rekstri heilbrigðisþjónustunnar aukast auk þess sem ég hef trú á því að lífsgæði þeirra aðila, bæði hins sjúka og aðstandenda hans, muni aukast til mikilla muna.

Mál svipað þessu var reyndar afgreitt á síðasta þingi, að mig minnir frá félagsmálanefnd þingsins, en náði ekki að komast í lokaumræðu og í atkvæðagreiðslu þannig að engin breyting var gerð þar á. Ég tel mikilvægt að þetta mál verði afgreitt með skjótum hætti. Hér er um mikið réttlætismál að ræða fyrir þá sem eru í þessum aðstæðum. Ef frumvarpið verður samþykkt, sem ég vona svo sannarlega að verði, mun það þýða aukna hagræðingu og minni fjárútlát í heilbrigðiskerfinu en þar höfum við þurft að skera niður að undanförnu á mjög sársaukafullan hátt.

Ég hef fundið fyrir stuðningi þingmanna úr öðrum flokkum við þá hugmyndafræði sem ég mæli hér fyrir og mælist því til þess að málinu verði vísað til félagsmálanefndar og verði sent þaðan til umsagnar. Vonandi verður það síðan samþykkt og gert að lögum. Hér er um góðan ásetning að ræða, mikið framfaramál fyrir heilbrigðiskerfið og fyrir þá aðila sem geta ekki séð um sig sjálfir og þurfa aðstoð til þess. Allir vilja jú dveljast eins lengi í heimahúsi og mögulegt er.

Ég mælist því til þess, frú forseti, að frumvarpinu verði vísað til félagsmálanefndar til snarprar afgreiðslu á þeim bæ.