139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

meðferð trúnaðarupplýsinga.

[14:10]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að ætla að taka málið upp á þeim vettvangi sem hæstv. forseti nefndi. Þetta er í sjálfu sér einfalt mál og snýst um að þingmenn allir sitji við sama borð þegar kemur að mikilvægum upplýsingum um þetta stóra mál, Icesave-málið. Efnis þess vegna skiptir auðvitað máli fyrir okkur að við fáum upplýst hvort bankastjóri Englandsbanka hefur verið annarrar skoðunar um það hvernig kröfugerð ætti að vera á hendur íslenska ríkinu en bresk stjórnvöld og sú samninganefnd sem fór fram fyrir þeirra hönd gagnvart okkur. Ég veit að hæstv. forseti vill gæta hagsmuna allra þingmanna og hlýtur að tryggja að við sitjum öll við saman borð þannig að ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi um það síðar á þessum þingfundi (Forseti hringir.) hvernig með þetta mál verður farið.