139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

meðferð trúnaðarupplýsinga.

[14:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil að það sé rétt eftir mér haft úr ræðustól Alþingis. Það sem ég átti við er að þegar hv. formaður fjárlaganefndar kemur fram í fjölmiðlum og fullyrðir að ekkert í þessum bréfum snerti Icesave-samningana, sem er rangt að mínu viti, er hún að tjá sig um innihald samtalsins. Ég sagði aldrei að hún hefði vísað orðrétt í samtölin, en það er mjög augljóslega hægt að geta sér til og lesa úr afstöðunni.

Einnig kom fram í þessu fjölmiðlaviðtali að fjárlaganefnd ætlaði ekki að aðhafast meira. Ég gekk út af fundi nefndarinnar í gær þess fullviss að það ætti að reyna að fá aflétt trúnaðinum af hluta af þessu samtali. Síðan les ég í Fréttablaðinu í morgun að fjárlaganefnd ætli ekki að aðhafast í málinu og að samtalið hafi ekki snúist um Icesave á nokkurn skapaðan hátt. Þetta gagnrýni ég, (Forseti hringir.) frú forseti.