139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

Magma.

[14:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Stefna hefur verið sett í lög frá Alþingi um að orkuauðlindir sem eru í opinberri eigu verði það áfram. Ég man ekki betur en að við höfum sett um það lög 2008 sem tryggja þau opinberu yfirráð sem hæstv. fjármálaráðherra ræðir hér um. Það er enginn að fetta fingur út í það nema kannski helst ríkisstjórnin sem telur greinilega að eignarhald sveitarfélaga á auðlindum sé ekki nægjanlegt. Gott og vel, Reykjanesbær er þá búinn að bregðast við því með því að bjóða ríkinu auðlindirnar til sölu þannig að það verði nægilega opinbert eignarhald.

Það kom hins vegar skýrt fram í máli þeirra tveggja manna sem ég vísaði til áðan að jafnvel þótt þeir hefðu klárað orkusölusamninginn í fyrrasumar værum við ekkert komin lengra áfram vegna þess að á meðan ríkisstjórnin pikkar endalaust í (Forseti hringir.) eignarhaldið á fyrirtækinu, meðan ekki er skorið úr um það — ef Steingrímur J. Sigfússon ætlar að feta í fótspor Hugos Chávez (Forseti hringir.) og þjóðnýta þetta fyrirtæki á hann bara að gera það í hvelli og eyða þessari óvissu. (Forseti hringir.) Ef það er stefnan á að láta verða af því, annars á að láta þetta fyrirtæki (Forseti hringir.) vera þannig að það sé hægt að (Forseti hringir.) byggja upp atvinnulíf í þessu landi.