139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

kröfur LÍN um ábyrgðarmenn.

[14:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Það er glæsilegt að það sé búið að bregðast við þessu. Þá skulum við gera það sem við eigum svo oft að gera og höfum svo mikið verið að gera, draga af þessu lærdóm. Ég held að það sé einkar mikilvægt vegna þess að svona mál koma ítrekað upp í kerfinu og það er ástæða til að beina því til hæstvirtra ráðherra í ríkisstjórn að þeir efni til samtala við undirstofnanir sínar og sjái til þess að undirstofnanirnar séu á sömu blaðsíðunni hvað varðar úrræði gagnvart heimilum í skuldavanda sem við erum að smíða hér. Það er ástæða til að hæstv. ráðherrar sem hér eru segi hinum ráðherrunum sem ekki eru hér að gera slíkt hið sama.

Hvað var nefnilega með þetta mál? Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna lagði greiðsluaðlögun, sem er úrræði til að koma fólki á lappirnar, til að gefa fólki hreint borð fjárhagslega og gera í rauninni að betri greiðendum námslána þegar upp er staðið, (Forseti hringir.) að jöfnu við að vera á vanskilaskrá sem er hreint ekkert úrræði, bara lýsing á ástandi.