139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

verðhækkanir á eldsneyti.

[14:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef við ætluðum að draga úr tekjum ríkisins eða auka útgjöld þyrfti auðvitað að fara yfir það hvort skilvirkasta leiðin til að mæta fólki væri sú að draga úr kostnaði við rekstur eyðslufrekra einkabíla. Við höfum gert breytingar sem eiga einmitt að stuðla að þróun í þá átt að ódýrara sé bæði að endurnýja og reka sparneytna og umhverfisvæna bíla. Það tel ég að sé hárrétt stefnumörkun. Auðvitað erum við með tiltekna samsetningu bílaflotans í dag og við vinnum okkur ekki út úr því ástandi á augnabliki. Að sjálfsögðu er það tilfinnanlegt fyrir fólk sem er mjög háð notkun bíla að kostnaðurinn er mikill við að reka þá þegar þessar aðstæður eru á heimsmarkaði með eldsneyti og gengismál þróast með þeim hætti (Gripið fram í: Það er einn þriðji af …) sem þau hafa gert að undanförnu. Ég held að það væri fljótræðislegt að rjúka til vegna tímabundinna aðstæðna af þessu tagi og ég held að sé nær að fylgjast með ástandinu og sjá hverju (Forseti hringir.) fram vindur.