139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

afskriftir skulda hjá ríkisstofnunum.

[14:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tel að við séum öll sammála því að mikilvægt sé, hvort sem við lítum til fólks sem starfar með okkur innan veggja Alþingis eða almenningur almennt, að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu heimila og fyrirtækja. Eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur sagt verða bankar að skila sínu svigrúmi til heimilanna og fyrirtækjanna. Það hefur gengið allt of hægt hingað til.

En stjórnvöld hafa hins vegar ekki staðið sig nógu vel. Ég held að ekkert af okkur hafi gleymt biðinni eftir niðurstöðu reiknimeistaranna miklu en nú hefur hins vegar komið yfirlýsing frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að öll úrræði stjórnvalda séu komin fram. Nú síðast er að finna á heimasíðu ráðuneytisins fréttatilkynningu um samkomulag sem var undirritað við fjármálastofnanir um fyrirkomulag úrræða fyrir heimilin. Í ljósi þeirra ummæla sem komu frá hæstv. menntamálaráðherra að við þurfum að vera vel á verði um að kerfið sé að vinna saman, þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort búið sé að afgreiða öll nauðsynleg lagafrumvörp til að hægt sé að fara í að ljúka endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja. Hefur Byggðastofnun lagaheimild til að afskrifa skuldir til fyrirtækja? Hefur Íbúðalánasjóður heimild til að afskrifa skuldir lántakenda, bæði fyrirtækja og heimila?

Þegar hefur komið fram á fundi menntamálanefndar að Lánasjóður íslenskra námsmanna telur sig ekki hafa heimild til að afskrifa skuldir. Nú spyr ég hvort það liggi fyrir hvort þessar tvær opinberu stofnanir — Íbúðalánasjóður sér fram á að þurfa að afskrifa skuldir allt að 10 þúsund heimila til að uppfylla 110%-leið ríkisstjórnarinnar, hvort sjóðurinn hafi lagaheimild til að fara í þær aðgerðir.