139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

einkaleyfi.

303. mál
[14:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum.

Frumvarpið er samið í samráði við Einkaleyfastofuna og í því er gert ráð fyrir breytingu á 68. gr. laganna um einkaleyfi þar sem kveðið er á um reglugerð sem efnahags- og viðskiptaráðherra setur um gjöld samkvæmt lögum um einkaleyfi og þóknun fyrir þá þjónustu sem Einkaleyfastofan veitir. Er lagt til að heimild ráðherra til að ákveða gjöld sem taka mið af kostnaði við rekstur Einkaleyfastofunnar vegna einkaleyfamálefna og þeirrar þjónustu sem veitt er verði gerð skýrari og færð betur til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru til innheimtu þjónustugjalda. Eru því taldir upp ýmsir kostnaðarliðir sem gjaldtakan á að fjármagna. Vísa ég um þá til texta frumvarpsins. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð að áliti fjárlagaskrifstofunnar.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. viðskiptanefndar.