139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

351. mál
[15:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekkert um það að segja hvort þetta fari greiðar í gegn. Stórar spurningar vöknuðu við síðustu umfjöllun hv. viðskiptanefndar um þetta mál og ýmsir hagsmunaaðilar gerðu líka miklar athugasemdir við það.

Eins og ég skil þetta þá er annars vegar rekstrarfélag sem setur verðbréfasjóði reglurnar og hins vegar svokallað vörslufyrirtæki sem á að halda utan um sölu, útgáfu, endurkaup, innlausn og ógildingu hlutdeildarskírteina og ýmislegt annað. Það sem kom svo skýrt fram hjá Seðlabankanum voru áhyggjur af því að of mikil tengsl væru á milli aðila og því yrði auðvelt að misnota þessa sjóði þar sem fólk treystir fyrirtækjunum fyrir að fara með fjármuni sína. Maður veltir fyrir sér hvort tekið sé nægilega vel á því með þeim aðskilnaði sem kemur fram í frumvarpinu. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að þetta verður eitt af því sem við munum að sjálfsögðu fara sérstaklega vel yfir í meðferð málsins.

Ég held að það hafi verið áfall fyrir okkur öll þegar við gerðum okkur grein fyrir hvernig farið hafði verið með þessa sjóði. Fólk virtist ekki gera sér almennilega grein fyrir því í hvað það lagði peningana sína og hvers konar áhætta var fólgin í því að fela þessum fjárfestingarsjóðum og fagfjárfestum fjármuni til vörslu.