139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

brunavarnir.

431. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. umhvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum. Við umfjöllun umhverfisnefndar um 79. mál, brunavarnir, á haustþingi 2010 voru lagðar til sömu breytingar og hér er mælt fyrir, en vegna misgánings duttu þær út við afgreiðslu málsins og til að lagfæra það er þetta frumvarp flutt.

Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á skilgreiningu hugtaksins mannvirki í þeim tilgangi að samræma það sömu skilgreiningu og fyrir liggur í gildandi lögum um mannvirki sem samþykkt voru í desember 2010 og tóku gildi 1. janúar 2011. Tillagan gerir ráð fyrir að skilgreining hugtaksins mannvirki í 3. gr. laganna verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, samgöngumannvirki, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögum þessum.“

Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til smálegar en þó mikilvægar breytingar á 24. gr. laganna sem fjallar um sérstaka eldhættu í mannvirkjum. Tillagan gengur út á að 1. og 2. mgr. 24. gr. laganna orðist svo ásamt fyrirsögn, með leyfi forseta:

„Sérstök eldhætta eða hætta á mengun frá mannvirki eða lóð þess.

Skylt er að láta fara fram sérstaka brunahönnun á mannvirki og/eða lóð þegar um er að ræða nýtt mannvirki þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta eða þar sem margir starfa, koma saman, fara um eða dveljast eða þar sem hætta er á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða. Brunahönnun skal lögð fyrir byggingarnefnd til samþykktar, sé hún til staðar, að öðrum kosti byggingarfulltrúa. Byggingarnefnd eða byggingarfulltrúi skal leita álits slökkviliðsstjóra um brunahönnun áður en hún er samþykkt.

Sé um að ræða lóð eða mannvirki sem þegar er byggt og er í rekstri og þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta eða þar sem margir starfa, koma saman, fara um eða dveljast eða þar sem hætta er á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða skal slökkviliðsstjóri gera úttekt á brunavörnum þess, gera kröfu um úrbætur ef ástæða er til og leggja hana fyrir eiganda eða forráðamann. Sé brunavörnum slíks mannvirkis og lóðar í veigamiklum atriðum ábótavant getur slökkviliðsstjóri eða byggingarfulltrúi gert kröfu um að gerð sé brunahönnun á mannvirkinu.“

Þannig hljóða efnislegar greinar þessa frumvarps. Um þessar breytingar var einhugur í umhverfisnefnd sem sjá má í breytingartillögum nefndarinnar fyrir 2. umr. um 79. mál á þskj. 352.

Að svo mæltu legg ég til, frú forseti, að málinu verði vísað til 2. umr.