139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings.

[15:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara í ljósi þessa sem fram kom hjá hæstv. forseta þakka henni fyrir að fresta fundi og verða við óskum okkar um að hæstv. forsætisráðherra verði kallaður hingað í Alþingishúsið til að gera grein fyrir viðbrögðum sínum vegna úrskurðar Hæstaréttar sem leiðir í ljós að kosning til stjórnlagaþings er nú ógild. Stjórnlagaþingið verður ekki kallað saman og það þarf að fara mjög vandlega yfir það hvernig á að bregðast við.

Það blasir við öllum þeim sem á þetta mál horfa að það hefur frá upphafi til enda verið algjört klúður, sú lagasetning sem kosningin byggðist á virðist hafa verið svo vanbúin að Hæstiréttur Íslands, æðsti dómstóll landsins, sá sér ekki annað fært en að ógilda kosninguna. Nú þurfa að berast viðbrögð frá þeim sem bera á þessu ábyrgð og ég vænti þess að það verði gert síðar í dag.