139. löggjafarþing — 64. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér stöndum við á Alþingi frammi fyrir þeirri staðreynd að sjálfur æðsti dómstóll landsins hefur ógilt kosningar til stjórnlagaþings. Á hátíðarstundum teljum við okkur búa í lýðræðisríki en nú er svo komið fyrir þessari aumu ríkisstjórn að ekki er hægt að halda hér löglegar kosningar. Manni stendur ekki á sama þegar maður hlustar á hæstvirta ráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. núverandi innanríkisráðherra sem hét dómsmálaráðherra fyrir áramót, þegar talið berst að því að efast er um úrskurð Hæstaréttar. Hæstv. innanríkisráðherra fór hér mikinn um að það hafi verið andi laganna, í allsherjarnefnd og hér á þinginu sem skipti máli. Hér voru brotin lög, hér voru meira að segja brotin kosningalög. Kosningarréttur er varinn í stjórnarskrá. Kosningarrétturinn er varinn í mannréttindasáttmála Evrópu. Kosningarrétturinn er varinn í samningum um borgaraleg réttindi. Kosningarrétturinn er eitt það mikilvægasta sem hver einstaklingur getur haft í lýðræðisríki. Hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra skulu átta sig á því. Það er ekki hægt að tala um þetta mál sem eitthvert fleipur eða eitthvert grín. Þetta er ekki grín eða fleipur. Fjölskipaður Hæstiréttur kemst að því að kosningar til stjórnlagaþings hafi verið ógildar.

Hæstv. innanríkisráðherra talaði líka mikið um að ekki hefðu verið brotin réttindi á einum einasta manni. Það voru þrír einstaklingar, þrír Íslendingar, sem kærðu þessa kosningu. Hvernig getur hæstv. ráðherra sem fer með yfirumsjón með dómstólum landsins haldið öðru eins fram? Það er grafalvarlegt að heyra slíkt úr munni hæstv. ráðherra.

Ef við förum yfir söguna í þessu öllu saman þá gagnrýndi Framsóknarflokkurinn það mikið að þetta væri einungis ráðgefandi stjórnlagaþing og við framsóknarmenn gagnrýndum mjög þann kostnað sem þetta stjórnlagaþing mundi kosta okkur Íslendinga og þjóðina. Haft er eftir framkvæmdastjóra stjórnlagaþingsins í fjölmiðlum í dag að nú liggi sá kostnaður á bilinu milli 500 og 600 milljóna. Þetta er kallað á hagfræðimáli, frú forseti, sokkinn kostnaður. Þessir peningar koma ekki til baka. Þetta er sá kostnaður sem ríkisstjórnin hefur nú þegar lagt í og úrskurður Hæstaréttar liggur fyrir. Þessir peningar koma ekki til baka. (Gripið fram í.) Mér finnst það hreint með ólíkindum að ríkisstjórnin og hæstv. innanríkisráðherra skyldu ekki hafa gripið strax í taumana þegar ljóst var að þrjár kærur lágu fyrir Hæstarétti um gildi þessara kosninga. Af hverju var það ferli ekki stöðvað sem sneri að undirbúningi stjórnlagaþingsins?

Ríkisstjórnin keyrði þetta mál áfram eins og ekkert hefði í skorist og svo kemur á daginn að það var úrskurðað ógilt. Það er mjög alvarlegt en þetta rímar svo sem við það svar sem hæstv. forsætisráðherra gaf mér hér 25. janúar síðastliðinn þegar ég lýsti yfir áhyggjum mínum af því að búið væri að kæra þessar kosningar til Hæstaréttar. Þá kom hæstv. forsætisráðherra hálfflissandi í ræðustólinn og sagðist ekki hafa áhyggjur af þessu vegna þess að landskjörstjórn væri með málið, það væri búið að gefa út kjörbréf til þessara einstaklinga og þess vegna hlyti málið að vera í himnalagi. Þetta eru viðhorf ríkisstjórnarinnar. Það mistekst allt sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt, það mistekst allt og henni eru mjög mislagðar hendur í mörgum málum.

Upphaflega hugmyndin að stjórnlagaþinginu, það stendur í greinargerð með lögunum, með leyfi forseta, að þetta frumvarp sé lagt fram og á ábyrgð forsætisráðherra. Því hljótum við að vísa ábyrgð þessara kosninga beint til hæstv. forsætisráðherra. Hún fer fyrir ríkisstjórninni. Ráðgefandi stjórnlagaþing hefur verið óskabarn hennar og ábyrgðin er mikil, nú þegar milli 500 og 600 milljónir.

Við erum heldur ekki farin að sjá fyrir endann á því hvort þeir sem nú þegar hafa fengið útgefin kjörbréf á þetta stjórnlagaþing geti farið í skaðabótamál gegn þessari vesælu ríkisstjórn, vegna þess að sumir hafa kannski sagt upp vinnu og annað. Eftirköstin í þessu máli eru ekki nærri, nærri komin fram.

Hæstv. forseti. Ég verð líka að víkja aðeins að þeim alvarleg hlut sem sneri að landskjörstjórn í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Ekkert í ræðu hennar sneri að því að biðjast afsökunar á því að kosningarnar hefðu farið með þessum hætti eða það að ríkisstjórnin ætlaði að bera ábyrgð í þessu máli, hvað þá heldur hún sjálf. Nei, í máli hennar kom nefnilega fram að þetta væri allt saman á ábyrgð landskjörstjórnar. Við skulum ekki gleyma því hvernig landskjörstjórn er kosin. Hún er kosin af Alþingi og það er tilnefnt í landskjörstjórn — allt saman sómafólk sem situr í landskjörstjórn. Og eftir þann framgang sem lagafrumvarpið fékk í þinginu og þann, má segja, þvætting sem settur var inn í frumvarpið á lokadögum afgreiðslu þess sem t.d. sneri að því númerakerfi sem ég var persónulega alfarið á móti, því að það er mjög kaldhæðnislegt að fyrsta persónukjörskosningin á Íslandi skuli hafa verið bundin númerum í þúsundatölu en ekki kosnar persónur, er ríkisstjórnin svo búin að koma því til leiðar að fyrsta persónukjörskosningin á Íslandi er dæmd ógild af Hæstarétti. Ég segi: Til hamingju með daginn, ríkisstjórn! Það mistekst allt hjá ykkur sem þið komið nálægt.

Það að hæstv. forsætisráðherra skuli koma þessu öllu yfir á landskjörstjórn er mjög alvarlegur hlutur, því að þegar í ljós kom að þrír einstaklingar hefðu kært kosninguna kallaði ég sérstaklega eftir fundi í allsherjarnefnd. Við því var orðið. Ég bað um að landskjörstjórn og fulltrúar landskjörstjórnar yrðu boðaðir. Ég fékk það í gegn í það sinn að fá að boða þá á fund í allsherjarnefnd. Landskjörstjórn kom fyrir nefndina, tók undir nokkuð af því sem sagt var í kærunum, en það var svo mikið hast á formanni nefndarinnar, hv. þm. Róberti Marshall, að landskjörstjórn var ekki gefið ráðrúm til að svara spurningum og útskýra sitt mál fyrir nefndinni. Að vísu var skilið eftir minnisblað í allsherjarnefnd en þar með var þetta afgreitt af hálfu allsherjarnefndar. Ég var mjög ósátt við þetta og eftir það kom ég hér upp og spurði forsætisráðherra hvort hún hefði ekki haft áhyggjur af þessu.

Virðulegi forseti. Við sitjum uppi með framkvæmdarvaldið að sinni. Ábyrgð forsætisráðherra er mikil en við megum þakka fyrir þrígreiningu ríkisvaldsins. Við megum þakka fyrir að þessi ríkisstjórn ræður ekki yfir dómstólunum. (Gripið fram í.) Það er mikið fagnaðarefni (Gripið fram í.) að Hæstiréttur hafi orðið samhljóma í þessum úrskurði, því að hér er ekki um að ræða þriggja manna rétt eins og í venjulegum málum, hér er ekki um að ræða fimm manna rétt eins og í fordæmisgefandi málum, heldur dæmdu þarna sex hæstaréttardómarar. Frú forseti. Ekki verður sagt að hægt sé að efast um þessa niðurstöðu. Dómararnir voru samtaka í þessum úrskurði. Hæstiréttur hefur talað. Dómstólarnir eru sem betur fer sjálfstæðir hér á landi. Við þurfum því ekki að sitja uppi með það eins og sum ríki að dómstólarnir séu samansúrraðir framkvæmdarvaldinu.

Ríkisstjórnin hélt áfram með málið þrátt fyrir framkomnar kærur, lét kærur þessara þriggja einstaklinga sem vind um eyru þjóta, keyrði málið áfram, leigði húsnæði, lagði í enn þá meiri kostnað en þörf var á og lét ekki staðar numið. Við skulum ekki gleyma því að stjórnlagaþing átti að koma saman eftir þrjár vikur.

Frú forseti. Ég lýsi ábyrgð þessa úrskurðar og þess að Hæstiréttur komst að þessari niðurstöðu beint til föðurhúsanna, beint heim til barnsmóður stjórnlagaþingsins, hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur.