139. löggjafarþing — 64. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:47]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Nú stendur yfir baráttan um Ísland, um auðlindirnar, um fiskinn í sjónum, um orkuna. Við vitum alveg hverjir voru á móti stjórnlagaþinginu og hvers vegna. Einnig má velta fyrir sér hvaða áhrif pólitísk skipan dómara hafi haft.

Forseti. Mikilvægast er að stjórnlagaþingið verði haldið og að við fáum róttæka endurskoðun á stjórnarskránni. Það er aðalatriðið.

Ég get tekið undir orð Gísla Tryggvasonar, eins frambjóðanda sem náði kjöri í þeirri kosningu sem nú hefur verið ógilt, um að hann telji að hugsanlegir ágallar á kosningunni hafi sannarlega ekki haft áhrif á niðurstöðuna. Engu að síður get ég tekið undir margt í ákvörðun Hæstaréttar vegna þess að enginn vafi má vera um lögmæti kosninga. Við eigum og verðum að gera ýtrustu kröfur. Á kosninguna má enginn skuggi falla.

Forseti. Nú kjósum við bara aftur, nýtum tækifærið og gerum þetta óaðfinnanlega næst. (Gripið fram í: Fá nýja …) Lærum, vinnum og stöndum með lýðræðinu. (BirgJ: Heyr, heyr.) Stjórnlagaþing skal halda sem fyrst. Við vissum að á leiðinni að nýrri stjórnarskrá væru margar þúfur. Nú höfum við hrasað um eina þeirra en þá stöndum við bara upp aftur og höldum ótrauð áfram. Við vitum hverjir voru á móti stjórnlagaþinginu og vildu eyðileggja það. Við skulum ekki láta það gerast. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)