139. löggjafarþing — 64. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:49]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Það er djúp sannfæring mín að kosning til stjórnlagaþings og sú ákvörðun sem Alþingi tók á síðasta ári hafi verið eitt það besta sem hefur gerst í íslenskum stjórnmálum í áratugi, gleðilegur áfangi sem skipti gríðarlega miklu máli og bar að fagna. Sérstaklega vil ég nefna þá samstöðu og þann samvinnuhug sem einkenndi vinnuna. Ég biðla til hv. þingmanna í þessum sal í þessu gríðarlega mikilvæga máli að haga öllum málflutningi sínum þannig að til friðar horfi. Við getum verið ósammála um það sem átti sér stað en við verðum öll að vera sammála um að það er sameiginlegt verkefni okkar að greiða úr stöðunni og finna lausn (Gripið fram í.) á þeirri stöðu sem við erum í núna. Það er einfaldlega sú staða sem upp er komin. Ég vefengi ekki þessa niðurstöðu Hæstaréttar. Hún liggur fyrir. Ég hef engar forsendur til að vefengja hana. Það verður að vera svo að fólk geti treyst niðurstöðum úr kosningum, um það erum við öll sammála.

Það sem við þurfum að komast að niðurstöðu um núna er til hvaða ráða við tökum. Ætlum við að endurtaka kosninguna? Er niðurstaðan sú að það sé nauðsynlegt að fara í allan ferilinn? Það mun ekki standa á mér að ráðast í þá vegferð sé það nauðsynlegt í stöðunni og sé það vilji þingsins. Er það niðurstaða okkar að þeir gallar sem Hæstiréttur fann að þessari kosningu hafi haft bein áhrif á niðurstöðu kosninganna? Það skiptir líka gríðarlega miklu máli og er meðal þess sem við þurfum að taka sérstaklega á.

Að mínu mati eru þessir tveir kostir í stöðunni, að Alþingi staðfesti þetta kjör með einum eða öðrum hætti, með því að kjósa þá einstaklinga sem þarna hafa verið valdir (Gripið fram í.) í sérstaka stjórnlaganefnd, (Gripið fram í.) eða að endurtaka alla kosninguna. Ég held að þetta séu möguleikarnir sem eru fyrir hendi. Það að hætta við þessa framkvæmd kemur ekki til greina. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það kemur ekki til greina að taka stjórnlagaþingið frá þjóðinni. Það er búið að kjósa til þess. Það er góður meirihlutavilji fyrir þeim breytingum sem menn vilja ráðast í meðal þjóðarinnar. Það verður ekki frá þjóðinni tekið.

Það lá alltaf fyrir að þetta verkefni væri langhlaup. Við gerðum okkur grein fyrir því í fyrrasumar þegar við náðum þeirri sameiginlegu niðurstöðu sem hefur náðst í málinu. Það eru nokkrar reglur sem gilda um langhlaup, það þekkja þeir sem þau hafa stundað. (Gripið fram í.) Maður hleypur á meðan maður getur. [Hlátur í þingsal.] Maður gengur sé þess nauðsyn, (Gripið fram í.) maður skríður ef þörf er á því en maður gefst aldrei upp.

Við ákváðum á þessu þingi að ráðast í breytingar á grunngerð samfélagsins sem eru ritaðar í stjórnarskrána, ekki vegna þess að stjórnarskráin hafi í einhverjum veigamiklum atriðum brugðist okkur á úrslitastundum, heldur vegna þess að við stöndum nú sem samfélag á tímamótum og erum að endurreisa samfélagið eftir mikið áfall. Þess vegna er sjálfsagt mál að við tökum höndum saman um að endurskoða grunngerðina sem er rituð í þennan sameiginlega sáttmála okkar allra, sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)