139. löggjafarþing — 64. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg rétt fyrir okkur að átta okkur á stöðunni eins og hún er í dag. Hún er sú að Hæstiréttur Íslands hefur ógilt kosningarnar til stjórnlagaþings sem fóru fram í nóvember. Það þýðir einfaldlega að ekkert stjórnlagaþing mun koma saman í febrúar nema málið hefjist með einhverjum nýjum hætti. Það er bara staðan. Lögin um stjórnlagaþing sem voru samþykkt á Alþingi fela það í sér að ágreiningsmál vegna kosninganna áttu að fara til úrskurðar Hæstaréttar. Það var ákvörðun þess meiri hluta hér á þingi sem stóð að samþykkt laganna að þannig skyldi með fara. Þannig fór það. Mér finnst hv. alþingismenn ekki geta gert lítið úr því þegar sá dómstóll sem fékk þetta verkefni í hendur samkvæmt lögum frá okkur kemst að einhverri niðurstöðu. Þess vegna finnst mér mjög sérkennilegt þegar bæði hæstv. forsætisráðherra og hv. formaður allsherjarnefndar gera því einhvern veginn skóna að Alþingi geti nú með ákvörðun sinni komist fram hjá þessari niðurstöðu Hæstaréttar með því að láta kosninguna standa samt. Það er eitthvað mjög bogið við þá hugsun og ég bið hv. þingmenn að víkja henni frá sér. Til hvers að fela aðila eins og Hæstarétti, æðsta dómstól landsins, að skera úr um ágreiningsmál ef Alþingi ætlar svo sjálft að sniðganga þá niðurstöðu sem Hæstiréttur kemst að samkvæmt þeim lögum sem hér hafa verið sett? Þetta skulum við hafa í huga.

Ýmislegt hefur komið fram í þessari umræðu. Það var ágætt hjá hæstv. innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni að segja oftar en einu sinni að hann vildi virða niðurstöðu Hæstaréttar. Það er auðvitað það sem við þurfum að gera, hvort sem einstakir þingmenn kunna að vera ósammála Hæstarétti um að þetta séu veigamikil atriði sem þarna er skorið úr um eða ekki. Niðurstaða Hæstaréttar er ógilding kosninganna. Það stendur og þannig er það, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Fram hjá því verður ekki farið.

Það eru nokkur atriði sem við þurfum að ræða frekar í þessu. Það er auðvitað tæknilegi hlutinn, þ.e. hvað gerist nú. Ef Alþingi tekur ekki einhverjar nýjar ákvarðanir, samþykkir ekki ný lög, mun ekkert stjórnlagaþing koma saman. Ég held að það sé alveg klárt. Þeir hér inni sem eru áhugasamir um stjórnlagaþing þurfa þá að koma með frumvarp sem felur í sér breytingar á eldri stjórnlagaþingslögum með ákvæðum um nýjar kosningar, nýja tímafresti, nýjan starfstíma stjórnlagaþings o.s.frv. og með úrbótum á þeim ágöllum á löggjöfinni sem Hæstiréttur gerði athugasemdir við. (Gripið fram í: Og öryggis og pappakassa.) Þetta eru atriði sem þeir sem eru áhugasamir um stjórnlagaþing verða að hugleiða vilji þeir gera þetta.

Ég hef ekki farið dult með þá skoðun mína frá upphafi þessa máls að ég hef talið þetta stjórnlagaþingsmál allt einhverja tilraunastarfsemi með stjórnarskrána sem ekki eigi rétt á sér. Ég hef aldrei farið dult með þá skoðun mína í gegnum allan feril þessa máls, bæði á fyrra þingi og svo síðar. Ekki mun ég því hafa frumkvæði að því að það verði komið með nýtt frumvarp til stjórnlagaþings. (Gripið fram í: Nú?) Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt er rétt að ítreka að afstaða okkar sjálfstæðismanna var sú að styðja þetta mál ekki, það voru aðrir hér inni sem tóku ábyrgð á þessari löggjöf og útfærslu hennar. Það voru aðrir sem gerðu það, aðrir sem höfðu frumkvæði að því og báru ábyrgð á því að leiða málið til lykta. Þeir þurfa auðvitað núna að líta í eigin barm.

Ef við tökum hins vegar afstöðu til þess (Forseti hringir.) hvort við teljum nauðsynlegt að fara að nýju í þennan leiðangur verðum við að hafa í huga, sérstaklega þegar hér koma þingmenn með hástemmdar yfirlýsingar um lýðræðislega kröfu þjóðarinnar og hvað það nú allt (Forseti hringir.) heitir, að það var einungis 1/3 kjósenda eða rétt rúmlega það sem sá ástæðu til að mæta og kjósa í kosningunni í nóvember.