139. löggjafarþing — 64. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:59]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það ríkir gleði í mörgum annars döprum hjörtum í dag út af úrskurði Hæstaréttar um að kosning til stjórnlagaþings skuli vera ógild. Ég vona að það sé sönn innri gleði yfir framgangi lýðræðisins en ekki þórðargleði yfir því að þjóðin sjálf fái ekki að ráða sínum eigin málum, að þjóðin sjálf fái ekki að ákvarða um hluti eins og eignarrétt á auðlindum og öðru slíku. (Gripið fram í: Þetta er klúður.)

Með lagakrókum hefur tekist að leggja stein í götu stjórnlagaþingsins. Hæstiréttur hefur kveðið upp úrskurð eða ályktarorð sem eru stutt og ættu að vera hverjum manni auðskilin. Þau eru svona, með leyfi forseta:

„Ályktarorð: Kosning til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 er ógild.“

Svo mörg voru þau orð. Hæstiréttur hefur úrskurðað þessa kosningu ógilda. Hugsjónin um stjórnlagaþing er í fullu gildi. Hæstiréttur hefur ekkert með þá hugsjón að gera. Ákvörðun Alþingis að efna til stjórnlagaþings er í fullu gildi. Hæstiréttur hefur ekkert með þá ákvörðun að gera. Það er kosningin sem er ógild, ekkert annað. Úr því ekki var staðið rétt að verki þá endurtökum við bara kosninguna og stöndum óaðfinnanlega að verki. (Gripið fram í: Nýjar 500 milljónir.)

Lýðræðið kostar peninga. Það væri miklu auðveldara að hafa hér einræðisherra eða einn flokk sem öllu réði. (Gripið fram í: Eða gera hlutina rétt í upphafi.) (Gripið fram í.) Lýðræðið er tímafrekt og veldur deilum. [Háreysti á þingpöllum.] Það er ýmislegt (Forseti hringir.) sagt á þingpöllunum sem maður kann ekki við að taka undir í ræðustól.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður gesti á þingpöllunum að hafa hljóð.)

Lýðræðið kostar peninga. Það er hægt að sjá eftir þeim peningum sem fara í stjórnlagaþing og það er hægt að sjá á eftir þeim peningum sem fara í stjórnlagaþingskosningar. Það er líka hægt að sjá eftir þeim peningum sem fara í alþingiskosningar. Það er líka hægt að sjá eftir þeim peningum, sem eru ekki litlir, sem fara í að reka Alþingi Íslendinga. Það væri hægt að loka öllu þessu og stjórna þessu t.d. af einum flokki sem gæti þá haft kannski einhverja pólitíska hækju sér við hlið. En þjóðin á heimtingu á betra stjórnarfari. Hún á heimtingu á því að hennar vilji sé virtur. Til þess var þetta stjórnlagaþing hugsað. Ég ætla að minna þingheim á það sem þeir sem styst minnið hafa hérna virðast hafa gleymt fullkomlega, það er að hér átti sér stað sögulegur atburður sem gengur undir nafninu búsáhaldabylting og ein helsta krafa sem sett var fram í þeirri byltingu var að þjóðin sjálf fengi að setja sér stjórnlög. Ég bið fólk að hafa þetta í huga.

Þeir sem gleðjast í litlu í hjarta sínu í dag yfir þessum steini sem lagður hefur verið í götu lýðræðis á Íslandi, þeim steini verður velt úr vegi af öflum sem eru miklu voldugri en allir stjórnmálaflokkar landsins til samans. Við munum halda stjórnlagaþing og hafi einhverjir hérna áhyggjur af því að ekki verði lagt fram nýtt lagafrumvarp um stjórnlagaþing, þeir geta sofnað rólegir strax í kvöld í þeirri öruggu vissu að slíkt frumvarp verður lagt fram og þjóðin verður spurð álits og látin hafa síðasta orðið um framtíð sína og örlög.