139. löggjafarþing — 64. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er mikið rætt um virðingu Alþingis ekki hvað síst af þingmönnum sjálfum. Oft virðist sú umræða dálítið mörkuð af sjálfhverfu og því að menn hafi tilhneigingu til að gera jafnvel lítið úr þinginu til þess að taka undir með því sem menn telja að sé hin ríkjandi skoðun og ef ríkið taki nógu mikið undir með gagnrýninni þá aukist kannski virðing þingsins. En er hugsanlegt að það hversu lítill árangur hefur náðst til að bæta virðingu Alþingis bendi til þess að menn fari ekki rétta leið í þeim efnum? Getur verið að þegar ekki nema rúmlega þriðjungur þjóðarinnar hefur áhuga á því að taka þátt í kosningu til stjórnlagaþings hefðum við átt að ræða hér opinskátt hvort þingið væri hugsanlega ekki alveg í tengslum við almenning og hvort við værum ekki að forgangsraða rétt í þinginu, a.m.k. hvort aðrir hlutir væru brýnni að mati almennings? Getur verið að við hefðum átt að þora að taka þá umræðu þá og að stjórnlagaþingið hafi hugsanlega að einhverju leyti verið lent í vandræðum löngu áður en Hæstiréttur úrskurðaði í dag? Getur verið að við þurfum í þessu þingi að þora að ræða hlutina alveg upp á nýtt? Við ættum að spyrja okkur hvort við getum forgangsraðað með öðrum hætti. Við þurfum líka að hafa áhyggjur af því hvort hér sé orðinn of ríkjandi nýr tíðarandi sem valdi því að við þorum ekki að ræða hlutina upp á nýtt.

Hér hafa nokkrir þingmenn komið upp, þar með talinn hæstv. innanríkisráðherra, og lýst því sem meginkostum þessa máls hversu lítill ágreiningur var um það, að þetta hafi verið mál þar sem menn náðu einhvers konar samstöðu. Ekki var tekist á, menn voru ekki svo mikið að deila. Það er alveg rétt sem hæstv. forsætisráðherra benti á, það var enginn flokkur sem barðist gegn þessu sem slíkur. Einn flokkur sat hjá að mestu leyti, aðrir flokkar samþykktu. En er hugsanlegt að við hefðum átt að ræða málið betur, að við hefðum átt að hafa meiri fyrirvara um það en ekki þorað það? Er hugsanlegt að þingið sé farið að láta stýrast af ótta? Ekki nóg með það heldur ætlist menn til þess líka að meira að segja dómstólarnir láti stjórnast af ótta, ótta við ástandið, ótta við byltinguna eins og einn hv. þingmaður gaf til kynna áðan. Á hvaða braut erum við komin þegar við ætlum ekki aðeins að láta þjóðþing Íslendinga stjórnast af ótta heldur ætlumst við til þess að dómstólarnir geri það líka?

Þess vegna segi ég guði sé lof fyrir Hæstarétt og guði sé lof fyrir það að dómstólarnir hafa þó sýnt það að þeir hafa ekki látið etja sér út í það að elta tíðarandann á röndum. Hver var það sem tryggði mestu kjarabót fyrir almenning á Íslandi? Það var Hæstiréttur. Það var Hæstiréttur sem dæmdi myntkörfulánin ólögmæt. Getur verið að við þurfum að líta meira til vinnubragðanna þar og þora að leggja mat á hlutina út frá því sem er rétt, út frá staðreyndum málsins, þora að skoða hlutina frá grunni?

Það er óumdeilt að það er framkvæmd þessara kosninga sem er meginvandamálið. Framkvæmdin var á vegum ríkisstjórnarinnar og þá hefur bæst við enn eitt klúðrið sem við höfum horft upp á frá þessari ríkisstjórn. Þetta er orðinn endalaus vandræðagangur. Það hefur verið endalaus vandræðagangur með að leysa úr skuldavanda heimilanna, tvö ár af endalausum vandræðagangi. Stofnun nýju bankanna, endalaus vandræðagangur þar. Sparisjóðirnir, Sjóvá, Seðlabankinn og efnahagsspár hans. Grunnatvinnuvegir landsins eru allir komnir í uppnám. Og meira að segja þegar stefndi í að tækist söguleg sátt um sjávarútveginn, nei, þá mátti það ekki verða, það þurfti að setja það aftur í uppnám líka. Landbúnaðurinn, iðnaðurinn, þarf að nefna það þar sem menn ræða nú helst um þjóðnýtingu og eignaupptöku? Það er endalaus vandræðagangur hjá þessari ríkisstjórn. Ég ætla ekki einu sinni að fara að fjalla um Icesave-málið í því sambandi. Getur verið að það sé komið nóg af þessum vandræðagangi?

Menn þurfa í fyrsta lagi að fara að hugsa hlutina upp á nýtt hér á þinginu, þora að taka lýðræðislega umræðu, velta fyrir sér ólíkum sjónarhornum í stað þess að nálgast hlutina alltaf þannig að í núverandi tíðaranda sé eitthvað eitt rétt og við eigum að reyna að elta það. Verður þingið ekki að þora að taka lýðræðislega umræðu? Getur ekki verið að í öllum þeim háfleygu yfirlýsingum sem hér falla um mikilvægi lýðræðis að það gleymist stundum að Alþingi Íslendinga er elsta lýðræðisstofnun í heimi og þingmenn eru lýðræðislega kjörnir? Væri ekki ráð að þeir færu að nýta það lýðræðislega umboð sem þeir hafa til þess að vinna þjóðinni gagn? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)