139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Áður en umræðan hefst vill forseti taka fram eftirfarandi: Frá því að úrskurður Hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna barst um miðjan dag í gær hefur forseti, eins og aðrir, fylgst með umræðunni sem farið hefur fram alls staðar í þjóðfélaginu um málið.

Eðlilega hefur sótt að forseta spurningin um hver hlutur þingsins er, hvort finna megi að undirbúningi Alþingis og þeim lagaramma sem hér var samþykktur. Það verður að fara yfir það mál. Hér hafa mikil tíðindi orðið og það er skylda okkar að nálgast málið af virðingu við kjósendur, læra af því og bæta um betur ef okkur hefur orðið á.

Ég tel mikilvægt að umræða fari fram um málið á Alþingi. Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að hæstv. innanríkisráðherra verði málshefjandi við umræðu á morgun en hann mun gefa þinginu munnlega skýrslu um málið kl. 11 í fyrramálið. Forseti á von á því að allsherjarnefnd fari yfir málið með helstu sérfræðingum og þeim sem að framkvæmd kosninganna stóðu. Það bíður svo hinnar pólitísku forustu hér á þinginu að leggja línur um framhaldið.

Kappsamlega hefur verið staðið að undirbúningi stjórnlagaþings, bæði á vettvangi undirbúningsnefndarinnar sem forsætisnefnd skipaði svo og hjá stjórnlaganefndinni sem Alþingi kaus. Fyrir liggur að taka ákvarðanir um frekari störf þeirra að svo komnu máli. Enn fremur verður að huga að því fólki sem til þingsins var kjörið en margt af því hefur gert ráðstafanir um störf sín. Því þarf að skapa einhverja vissu um framhaldið.

Landskjörstjórn mun funda síðdegis. Forseti hefur í morgun verið í sambandi við flesta sem að málinu koma og hyggst enn fremur halda fund nú síðdegis með formönnum þingflokka um hvernig við höldum á málinu á Alþingi á næstunni.