139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það duldist engum sem fylgdist með umræðu um úrskurð Hæstaréttar Íslands í gær að ríkisstjórnin var gersamlega óundirbúin þeirri niðurstöðu sem kynnt var. Það duldist heldur engum að niðurstaðan var áfall fyrir ríkisstjórnina og hæstv. forsætisráðherra persónulega. En fyrst og fremst er niðurstaðan meiri háttar áfall fyrir íslensku þjóðina að staðfest sé að hér sé við völd ríkisstjórn sem getur ekki staðið skammlaust að almennum kosningum í landinu, ein ríkisstjórna vestrænna lýðræðisríkja. Í stað þess að axla ábyrgð á þessu klúðri urðum við vitni að því að hæstv. forsætisráðherra benti á undirmenn sína, Sjálfstæðisflokkinn, og í raun alla aðra en sjálfa sig og ríkisstjórn sína.

Þetta mál og niðurstaða Hæstaréttar Íslands snýst ekki bara um ríkisstjórnina og klúður hennar heldur líka um fólk. Það er nefnilega þannig að 525 einstaklingar buðu sig fram í góðri trú til stjórnlagaþings og trúðu því og treystu að niðurstöður kosninganna mundu standa og sá lagagrundvöllur sem kosningarnar byggðu á mundi halda. Þetta fólk lagði fé og fyrirhöfn í kosningabaráttuna, menn tóku sér hlé frá námi eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, gerðu ráðstafanir varðandi vinnu sína o.s.frv. Þetta fólk fer ekki á stjórnlagaþing, það fær engin laun og hefur orðið fyrir tjóni.

Af þeim ástæðum vaknar sú spurning upp hvort þessir einstaklingar eigi hugsanlega rétt á skaðabótum frá ríkinu. Mig langar til að spyrja hv. þm. Róbert Marshall, formann allsherjarnefndar, hvort hann telji í ljósi niðurstöðunnar að ríkinu beri að bæta þessu fólki tjón sitt, hvernig telur hann að (Forseti hringir.) að standa eigi að slíkum bótagreiðslum, á að gera það með samkomulagi eða mega þessir einstaklingar búast við því að þurfa að leita réttar síns (Forseti hringir.) fyrir dómstólum?

(Forseti (ÁRJ): Enn hvetur forseti þingmenn til að virða tímamörk.)