139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil að við pössum okkur á því í þessum sal að missa ekki sjónar á því um hvað við erum að ræða. Við erum ekki að ræða skoðanir sjálfstæðismanna á því hvort halda eigi stjórnlagaþing eða ekki og hvort við þenjum okkur yfir einhverjum málum eða ekki. (Gripið fram í.) Við erum að ræða það að Hæstiréttur Íslands ógilti kosningu til stjórnlagaþings vegna þeirra ágalla sem óhjákvæmilega leiddu til þeirrar niðurstöðu, ágalla sem má draga meiri hluta Alþingis til ábyrgðar fyrir og forsætisráðherra sem hefur barist fyrir þessu máli. Það má draga fjöldamarga til ábyrgðar fyrir niðurstöðunni. En við skulum passa okkur á því að láta þetta mál snúast um þetta núna. Hvernig ætlum við að bregðast við þessu núna? Þegar við erum búin að koma því í farveg hvernig við ætlum að standa að stjórnarskrárbreytingum getum við tekist á. Vonandi berum við gæfu til þess að koma því í farveg sem við getum öll verið sátt við. Þá skulum við takast á um hvernig breytingar við viljum gera á stjórnarskránni og ég get algjörlega sagt fyrir hönd þingflokks Sjálfstæðisflokksins að ekki mun standa á okkur að gera það, svo fremi það verði gert rétt.

Það er það sem við höfum alltaf haldið fram í þessari umræðu, við stöndum ekki í vegi fyrir stjórnarskrárbreytingum, við stöndum í vegi fyrir, og munum gera það áfram, að þær verði illa unnar og gerðar af óvandvirkni. Það er okkar sjónarmið í þessu máli.

Mér fannst mjög leitt að heyra í umræðunni í gær hvernig hæstv. forsætisráðherra kastaði ábyrgðinni af þessu sálarmáli sínu yfir á undirmenn sína af miklum ósmekklegheitum. Mér fannst líka mjög ósmekklegt að heyra í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að henni fyndist fullkomlega fráleitt að hún ætti að bera hér einhverja ábyrgð. Fullkomlega fráleitt, sagði stjórnmálamaðurinn (Forseti hringir.) sem hefur alltaf kallað eftir því með hárri raust að ráðherrar hér beri ábyrgð (Forseti hringir.) á sínum gjörðum — en það á víst við um aðra ráðamenn í öðrum ríkisstjórnum. Ekki benda á mig.