139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að hann þekkti engin dæmi um það í vestrænum lýðræðisríkjum að kosningar á landsvísu hefðu verið ógiltar. Fyrir hv. þingmenn skal það upplýst að Ólafur Þ. Harðarson er ekki í Sjálfstæðisflokknum.

Ég vek athygli ykkar á því hvað þetta þýðir. Þjóð okkar sem oft hefur verið nefnd elsta lýðræðisþjóðin, við eigum elstu lýðræðisstofnunina, Alþingi Íslendinga, getur ekki haldið kosningar skammlaust.

Virðulegi forseti. Hvernig ætla menn að útskýra það fyrir útlendingum að við getum ekki haldið kosningar skammlaust? (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hæstv. innanríkisráðherra segir: Þetta voru bara formreglur. En til hvers halda menn að formreglur séu? Þær eru til þess að ekki sé hægt að hafa rangt við í kosningum. Til þess eru þær meðal annars. Hér kemur hæstv. forsætisráðherra og segir að ríkisstjórnin beri enga ábyrgð, ekki nokkra einustu ábyrgð á lögunum og því síður á framkvæmdinni. Væntanlega ekki heldur á því að 800 milljónir til 1 milljarður fer í þessar kosningar. Síðan segja hér hv. þingmenn: Við þurfum að draga lærdóm af þessu, vanda til verka, jafnvel hv. stjórnarþingmenn.

Í morgun var tilkynnt að það eigi að taka út úr hv. heilbrigðisnefnd mál sem er fullkomlega óreifað, menn þekkja ekki einu sinni verðmiðann á því, mál sem enga umfjöllun hefur fengið á þessu þingi. (Forseti hringir.) Það er eitthvað mikið að hér, menn hafa augljóslega ekkert lært og taka því síður ábyrgð á eigin gjörðum.