139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

fundarstjórn.

[14:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt um úrskurð Hæstaréttar í gær. Það vekur upp þá spurningu hvernig Alþingi hefur tileinkað sér þann lærdóm sem rannsóknarskýrsla Alþingis sýndi okkur fram á. Við hér, 63 þingmenn þjóðarinnar, samþykktum ákveðna þingsályktunartillögu í kjölfar málsins og ætluðum okkur að gera betur og læra af reynslunni. Ef hlustað er á ræður forustumanna Alþingis, ríkisstjórnarflokkanna, hér í gær verður að segja að það fyrsta sem kom í hugann var sú mynd sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar dró svo skýrt upp, þ.e. að enginn ætlaði sér að bera ábyrgð á neinu, hver vísaði á annan. Ég tel að okkur, þingmönnum þjóðarinnar, hafi mistekist að læra af reynslunni.

Ég tel að forseti Alþingis þurfi að horfa á þá staðreynd og beita sér fyrir því að við tökum okkur tak í þessum efnum. Við berum ábyrgð á því, forseti Alþingis ber ábyrgð á því, að sú vinna sem fór hér í gang, fyrst með rannsóknarnefndinni (Forseti hringir.) síðan með þingmannanefndinni, skili einhverju, þeirri vinnu lauk með samþykki allra þingmanna á umræddri þingsályktunartillögu.