139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

fundarstjórn.

[14:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir allt það sem hv. þingmaður sagði hér á undan mér en vil þó undir þessum lið — ég tala nú ekki um í kjölfar þessa stórkostlega klúðurs sem varð við framkvæmd kosninganna — vekja athygli á því, af því að verið er að tala um að draga lærdóm af hlutunum, að í morgun var tilkynnt að taka eigi mál úr hv. heilbrigðisnefnd sem í vantar öll gögn sem skipta máli. Þann 26. janúar var stjórnarandstöðunni neitað um að fá gesti til að ræða málið. Það er aldrei gott þegar það gerist en stundum er það þannig þegar mikið liggur við og mikið liggur á, en þetta er í byrjun þings.

Nú er það ekki þannig, virðulegur forseti, að álagi sé fyrir að fara í hv. heilbrigðisnefnd. Ef einhver hv. þingmaður þarf (Forseti hringir.) á afslöppun að halda mæli ég með því að hann fari í þá hv. nefnd. En ég legg til að meiri hlutinn og forseti beiti sér fyrir því að menn (Forseti hringir.) geri það sem þeir segja, þ.e. að vanda til verka.