139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

fundarstjórn.

[14:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að biðjast afsökunar á þeim orðum sem ég lét falla áðan, hafi ég sagt að tölvudeild Alþingis hefði hylmt yfir. Það er að sjálfsögðu ekki rétt og ég bið tölvudeild afsökunar á því.

Það sem ég átti við undir glymjandi bjölluslætti forseta var að tölvudeild Alþingis ráðlagði að málið færi ekki í hámæli. Og það getur virðulegur forseti vonandi staðfest því að það kom fram á fundi í forsætisnefnd sem ég sat. Í samstarfi og samráði við forseta Alþingis og hæstv. forsætisráðherra var ákveðið að láta þingmenn ekki vita af því að tölva hefði fundist á nefndasviði Alþingis. Ég lít málið mjög alvarlegum augum vegna þess að þetta snýr að verndun, stjórn og gæslu Stjórnarráðs Íslands, löggjafans og dómstólanna, sú innrás sem gerð var í húsnæði (Forseti hringir.) Alþingis.