139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

göngubrú yfir Ölfusá.

109. mál
[14:52]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á gerð göngubrúar yfir Ölfusá við Selfoss. Þessi tillaga hefur áður verið flutt á Alþingi og var þá 1. flutningsmaður þáverandi hv. þm. Kjartan Ólafsson, en ég endurflyt hana hér með öðrum þingmönnum Suðurkjördæmis. Meginmál hennar felur það í sér að samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, eins og hér segir, verði falið að láta meta kosti þess að gera göngubrú yfir Ölfusá og meta kostnað við slíka framkvæmd. Úttekt á framkvæmdinni og kostnaðarmat skuli liggja fyrir 1. mars nk.

Það þekkja allir sem lagt hafa leið sína um hinn fjölfarna Suðurlandsveg og í gegnum þéttbýlið á Selfossi og yfir Ölfusárbrú hversu þröng brúin er og hversu lítið umferðaröryggið er á þessu samgöngumannvirki, þó sérstaklega fyrir gangandi vegfarendur. Þess vegna teljum við flutningsmenn tillögunnar nauðsynlegt að gera bragarbót á.

Menn þekkja að það er byggð beggja vegna við. Menn sækja vinnu yfir brú og það er mikil umferð þarna yfir, bæði ökutækja og eins gangandi vegfarenda. Það eru síauknir þungaflutningar sem farna þarna um. Það hefur þrengt að gangandi umferð um brúna og það hafa oft orðið óhöpp. Handrið sem skilur að gangandi vegfarendur og ökutæki er á Ölfusárbrú. Sem betur fer hafa enn ekki orðið slys á mönnum en hins vegar er ljóst að það er brýnt að taka á þessu máli og tiltölulega einfalt að okkar mati að gera það.

Það hefur lengi legið fyrir í aðalskipulagi að ný brú verði byggð yfir Ölfusá við Laugardæli. Við tilkomu slíks mannvirkis yrði þungaflutningunum beint norður og austur fyrir Selfoss en þessi brú er ekki komin á samræmda samgönguáætlun. Þess er vonandi ekki langt að bíða. Engu að síður er nauðsynlegt að ráðast í þetta verkefni til að tryggja umferðaröryggi og til að tryggja þeim fjölmörgu gangandi vegfarendum sem þarna eiga leið um bættar aðstæður sem og að greiða fyrir umferð í gegnum þetta stóra og mikilvæga samgöngumannvirki sem Ölfusárbrúin er. Við þekkjum það mörg sem eigum þarna reglulega leið um hversu mjög þessar þrengingar tefja fyrir umferð. Þegar menn sækja á góðum dögum á sumrin yfir á Suðurland til að skoða þá miklu náttúrufegurð sem þar er sést hversu langar bílalestir myndast við þetta samgöngumannvirki. Úr þessu þarf að bæta. Það er tiltölulega einfalt. Þessi tillaga gengur út á það að ráðherra verði falið að meta þessa kosti og eins að meta kostnaðinn.

Ég vonast til þess að þetta mál fari til samgöngunefndar Alþingis og nái framgangi í þinginu.