139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

göngubrú yfir Ölfusá.

109. mál
[14:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni hefur tillagan verið lögð fram áður. Hv. þingmaður lagði hana fram í fyrravetur með a.m.k. allflestum þingmönnum Suðurkjördæmis. Þar sem ég er ekki skráður á ályktuninni núna vildi ég koma því skýrt á framfæri að ég var staddur erlendis og varamaður minn sat á þingi fyrir mig og er hér á, hv. þm. Birgir Þórarinsson. Auðvitað styð ég þessa þingsályktunartillögu fullkomlega og kem upp fyrst og fremst til að lýsa þeirri skoðun minni.

Því má auðvitað bæta við að eins og kom fram í ágætu erindi hv. 1. flutningsmanns er umferð um þessa brú gríðarleg, ekki síst umferð gangandi vegfarenda. Til að mynda gengur stór hópur barna í skólann á hverjum degi. Gamla brúin er glæsilegt mannvirki en hún er þröng og það þrengdi að henni þegar göngubrúin var sett. Án þess að ég ætli að fara út í verkfræðilega hönnun fyndist mér áhugavert að ekki yrðu aðeins skoðaðir kostir þess að láta gera göngubrú og meta kostnaðinn, heldur yrði þá skoðað hvort nýta mætti gömlu brúna sem burðarvirki í henni með öðrum hætti en gert er í dag þar sem tekinn er hluti af akstursbreidd brúarinnar í göngubrúna.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu heldur bara lýsa því yfir að ég vona að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga og að tekið verði tillit til hennar í 12 ára samgönguáætlun.