139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

virðisaukaskattur.

164. mál
[15:20]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim tveimur hv. þingmönnum Ásbirni Óttarssyni og Gunnari Braga Sveinssyni fyrir góð orð í sambandi við þetta mál. Þeir eru báðir meðflutningsmenn að málinu og þekkja mjög vel þessar aðstæður eins og þeir gerðu mjög vel grein fyrir í góðu ræðum áðan.

Ég vil vekja athygli á því sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði áðan að á sínum tíma þegar verið var að ræða þessi mál í fjárlaganefnd tókst býsna góð þverpólitísk samstaða um málið. Það segir okkur að það er mikill skilningur almennt í þinginu gagnvart málinu. Ef við lítum yfir þann hóp þingmanna sem standa að því er um að ræða ellefu manna hóp úr fjórum stjórnmálaflokkum. Ég held því að full ástæða sé til að ætla að um málið geti orðið prýðileg samstaða.

Ég ítreka að þetta er auðvitað ekki eitt af þeim stóru málum í hinu þjóðfélagslega samhengi nú um stundir. Þetta er eitt af þeim mikilvægu málum sem við þurfum engu að síður að hyggja að vegna þess að þau varða mikla hagsmuni á tilteknum svæðum, fyrir tiltekin sveitarfélög við tilteknar aðstæður. Við eigum ekki að gera lítið úr því, þvert á móti, þetta er gríðarlega mikið mál eins og við verðum svo mikið vör við, þingmenn landsbyggðarkjördæmanna, þegar við förum um landið og hittum sveitarstjórnarmenn að máli að þetta hvílir býsna þungt á mörgum vegna þess að þetta hefur veruleg áhrif á fjárhagsstöðu ýmissa sveitarfélaga og möguleika þeirra til að takast á hendur aðra lögbundna þjónustu sem þeim er ætlað að sinna sem sveitarfélag á sínu svæði. Þetta hefur allt saman áhrif á búsetu manna vegna þess að þetta hefur áhrif á fjárhag sveitarfélaganna.

Það er líka alveg hárrétt sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vakti athygli á áðan þegar hann sagði að þessu er auðvitað misjafnlega sinnt og fyrir því eru ýmsar ástæður. Á einstöku svæðum, t.d. í friðlandinu norður á Ströndum, eru veiðar á ref og mink einfaldlega bannaðar.

Það eru svo sem ekki fyrstu afskipti mín af málum sem snúa að ref og mink það frumvarp sem ég er hér að flytja ásamt öðrum þingmönnum. Ég hafði um það forgöngu á sínum tíma í hinu gamla Vestfjarðakjördæmi að við þáverandi þingmenn þess kjördæmis fluttum þingsályktunartillögu sem fól í sér að heimila veiðar á ref og mink í friðlandinu á Hornströndum. Það mál fékk mjög blendnar viðtökur og þær voru svona: Heimamenn allir voru þeirrar skoðunar að þá þingsályktunartillögu ætti að samþykkja. Sérfræðingaveldið hér fyrir sunnan eins og það lagði sig, eftir því sem ég best man, lagðist algjörlega þvert á málið og vitaskuld þurfti þá ekki að spyrja að leikslokum, sérfræðingaveldið vann, heimamennirnir töpuðu, flóknara var það ekki. Eitt af því sem sérfræðingarnir bentu á að væri veila í tillögunni sem við fluttum á þeim tíma var að í greinargerðinni sem fylgdi tillögunni stóð eitthvað á þá leið að nú væri svo komið á mörgum svæðum norður á Ströndum að söngur mófuglanna hefði hljóðnað eftir að veiðar á ref og mink voru aflagðar á því svæði. Þá bentu þessir mætu vísindamenn á að þetta væri ósannað mál því að flutningsmenn hefðu ekki haft fyrir því að mæla söng mófuglanna áður en veiðarnar á ref og mink voru stöðvaðar á sínum tíma. Og þar sem þetta væri gjörsamlega ósannað mál væri náttúrlega ekki nokkur lífsins leið eða nokkur vegur að leggja fram svona óvandað þingmál sem ekki hefði betri vísindalegan grundvöll en raun bar vitni um. Fyrir þessu féll þingið á sínum tíma og taldi að það væri náttúrlega alveg útilokað annað en að halda áfram að friða ref og mink á Hornströndum sem m.a. veldur því, að mati t.d. grenjaskyttna og bænda sem búa þarna næst svæðunum, að refur og minkur, ekki síst minkur, eru að flæða yfir svæðin og það veldur síðan miklum vanda.

Kjarni málsins er einfaldlega þessi. Vegna eðlis málsins, eins og hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson og Ásbjörn Óttarsson hafa rakið hérna, er þetta samfélagslegt verkefni. Þetta getur þess vegna ekki verið einkamál lítilla, fámennra landmikilla sveitarfélaga þar sem aðstæðurnar eru þannig að kostnaðurinn verður hlutfallslega mikill. Það er þessum sveitarfélögum einfaldlega ofviða. Þess vegna er það eðlilegt að við lítum á þetta og skilgreinum það sem samfélagslegt verkefni. Frumvarp þetta er örlítil viðleitni í þá átt vegna þess að hér er ekki verið að leggja til að ríkið taki algjörlega að sér þennan kostnað heldur eingöngu að virðisaukaskattur sé endurgreiddur eins og hér hefur verið rakið.

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að hafa fleiri orð um þetta. Ég fagna eingöngu þessum góðu viðtökum og ætla að leyfa mér að vona að niðurstaðan geti orðið sú að frumvarpið verði samþykkt að lokum.