139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

skipun starfshóps um ofbeldi maka gegn konum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

211. mál
[16:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að hafa tekið frumkvæði í þessu máli og taka, eins og hún kom réttilega inn á í ræðu sinni, við keflinu frá varaþingmanninum Önnu Pálu Sverrisdóttur sem á allan heiður að því að þetta kemur hér fyrst inn í þingið. Því er síðan haldið áfram eftir að hún fer aftur til sinna starfa.

Því er þannig háttað í þessu máli að 32 flutningsmenn eru að þingsályktunartillögunni, það er meiri hluti fyrir henni hér á þinginu. Hún gengur út á það, eins og hv. þingmaður kom inn á, að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að bregðast við ofbeldi maka gegn konum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Því miður sýna dæmin að slíkt ofbeldi viðgengst hér á landi.

Hv. þingmaður fór mjög vel yfir málið efnislega, og sé ég ekki ástæðu til að gera það hér. En ég vil beina því til hæstv. forseta að ég geri mér vonir um að það verði afgreitt löngu fyrir lok þingsins. Þar sem meiri hluti er fyrir málinu tel ég að menn eigi að klára það sem fyrst. Það er mjög mikilvægt að bregðast við þeim aðstæðum sem við vitum að eru uppi. Ég vænti þess að þetta mál fái skjóta og góða afgreiðslu.