139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

tekjuskattur.

275. mál
[16:19]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Þetta frumvarp fjallar um það sem löngum hefur verið kallað sjómannaafsláttur sem er afsláttur af tekjuskatti sjómanna vegna vinnu fjarri heimilis. Það er með ólíkindum að hæstv. ríkisstjórn Íslands skuli hafa ákveðið að fella niður þann sjómannaafslátt sem hefur verið í gildi um árabil á Íslandi, ekki síst með tilliti til þess að það voru slíkar upphæðir að til skammar var fyrir þátttöku ríkissjóðs í þeim efnum. Allar stéttir á Íslandi njóta afsláttar, frádráttar frá tekjuskatti, vegna vinnu fjarri heimilis. Það er með ólíkindum að upp skuli komin sú staða að eina stétt landsins sem ekki á að njóta sjómannaafsláttar er sú stétt sem vinnur svo sannarlega fjarri heimili sínu langdvölum við einhverjar erfiðustu aðstæður sem um getur í atvinnu á Íslandi, við sjómennsku. Þetta er til háborinnar skammar og þessi aðför hæstv. ríkisstjórnar að sjómönnum landsins, sjávarplássum og eðlilegri virðingu fyrir samsetningu samfélagsins er þess eðlis að ekki verður við unað.

Það eru u.þ.b. 9 þúsund færslur á Íslandi hjá atvinnurekendum og öðrum vegna afsláttar frá skatti, dagpeninga og hvað það nú heitir, sjómannaafsláttur og aðrir þættir sem fjalla um þetta. Af þessum 9 þús. aðilum sem véla um þetta, þar sem geta verið mismargir aðilar sem njóta þessa réttar, er aðeins 1 þús. sem tengist sjómannastéttinni. Landkrabbarnir, embættismennirnir, starfsmenn fyrirtækja stórra og smárra um allt land, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, eiga að njóta þessa réttar en sjómenn eiga að fara út í kuldann. Hvílík skömm fyrir íslenskt þjóðfélag.

Það er sjávarútvegurinn, veiðar, vinnsla og markaðssetning, sem tryggir það og veldur því að íslenska þjóðin er á floti í dag. 60% af þjóðartekjunum koma úr þessum atvinnuvegi og vegna þess að vel hefur gengið í honum þrátt fyrir allt og menn hafa getað hagað seglum eftir vindi hefur þetta verið þess eðlis að það hefur bjargað íslenskri þjóð þrátt fyrir að öllum þessum útvegi sé haldið í heljargreipum vegna óstjórnar, ómarkvísi, geðþóttaákvarðana og innanborðsrifrildis hjá ríkisstjórnarflokkunum þar sem eiginlega er deilt um hvort slátra eigi íslenskum sjávarútvegi í einu vetfangi, slátra mjólkurkúnni eða njóta mjólkurinnar lengur. Svo vitlaus er þessi umræða. Það er með ólíkindum að fjölmargir hv. þingmenn á Alþingi Íslendinga í dag vita ekkert um sjávarútveg og vilja ekkert vita um hann. Þá kannski rennir í grun að það sé slorlykt af honum og þá er það ekki nógu fínt. Það er óskemmtilegt að þurfa að segja þetta en þetta er staðreynd og það er mergurinn málsins, virðulegi forseti.

Í því frumvarpi sem við leggjum hér fram, auk mín hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson, er fjallað um að rétt til sjómannaafsláttar eigi að hafa þeir einstaklingar sem stunda sjómennsku og eru lögskráðir í skipsrúm að því tilskildu að laun þeirra fyrir sjómennsku nemi 30% af tekjuskattsstofni þeirra hið minnsta. Þetta þýðir að það er tekið á þessu föstum tökum.

Og hver er viðmiðunin, virðulegi forseti?

Allar fiskveiðiþjóðir í Evrópu hafa sjómannaafslátt. Íslendingar eru ein af fiskveiðiþjóðunum í Evrópu. Samt eru til hv. þingmenn á Alþingi Íslendinga sem drulla yfir sjómenn, drulla yfir þá og eru fastir í einhverju eiginhagsmunapoti, einhverjum geðþóttaákvörðunum og tryllingslegri hugsun. Þeir eru til í öllum flokkum, því miður, en mismunandi mikið eftir flokkum. Ef íslenskir þingmenn geta ekki sýnt sjómönnum virðingu eru þeir ekki þingmenn Íslands, að mínu mati. Þá eru þeir þingmenn einhverra kerfa, einhverra hagfræðikenninga, einhverrar samsuðu og þjóðfélaga sem við eigum ekkert erindi með á Íslandi. Þeir skulu koma og reyna að bera sig vel. Guð hjálpi þeim.

Þau kerfi sem eru notuð á Norðurlöndum og í Evrópu og varða slíkan rétt sjómanna sem vinna fjarri heimilum eru mjög mismunandi. Það eru t.d. mjög háar tölur sem lúta undir það sem er tekjufrádráttur hjá sjómönnum í flestum löndum Evrópu. Hann er mestur þar sem farmenn eru flestir og sá þáttur í Noregi sem lýtur að farmönnum felur í sér mjög háar tölur, tugi þúsunda á mánuði. Þar er líka sú sérstaða að þar búa farmenn, sjómenn, nánast árið um kring hingað og þangað um hnöttinn, minnst á heimaslóðum sínum í Noregi.

Það frádráttarkerfi sem er miðað við í þessu frumvarpi miðast í rauninni við það sem gildir fyrir fiskimenn, bæði í Færeyjum og Noregi. Það er í lægri kantinum yfir þessa línu alla en þó er það boðlegt, a.m.k. til að byrja með og til að koma þessu á koppinn, þessu margumdeilda máli, koma því í heila höfn og sýna þannig íslenskri sjómannastétt virðingu, stéttinni sem skilar okkur áfram fyrst og fremst. Hún keppir ekki á stórmótum í nokkrar vikur annað og þriðja hvert ár, hún keppir á hverjum einasta degi á hafinu í kringum Ísland, erfiðasta hafsvæði til veiða á jörðinni. Þaðan fáum við björg í bú og við verðum að gera okkur grein fyrir því og verðum að átta okkur á því að þetta verður að geta gengið til þess að við getum haldið úti á Íslandi menntakerfi, heilbrigðiskerfi, félagskerfi, þjónustu velferðarkerfis sem við viljum að fólkið á Íslandi njóti.

Sá frádráttur sem miðað er við í þessum lögum miðast við 14% af ákveðnu tekjuhlutfalli. Hann getur að hámarki orðið yfir árið um 1.450 þús. Það þarf ótrúlega há laun til að ná því. Ef þau nást nokkurn tímann er það fyrst og fremst á þeim grunni að örfáir einstaklingar gætu notið þess. Að öllu jöfnu yrðu þetta einhverjir tugir þúsunda á mánuði.

Það er sagt í dag að sjómenn hafi góð laun og þurfi engan afslátt. Ætli það geti verið viðmiðunin? Ætli íslensku ráðherrarnir og embættismennirnir í kerfinu hafi ekki ágætislaun? Af hverju þurfa þeir dagpeninga og frádrátt frá skatti? Hvaða bull er þetta? Þetta er það sem við búum við og þetta er það sem við verðum að horfast í augu við.

Virðulegi forseti. Það skiptir miklu máli að jafnræði sé í þessum efnum. Sjómannaafsláttur, tekjufrádrátturinn sem hér er rætt um, er ígildi þess sem gengur og gerist í samfélaginu en í lægri kantinum.

Síðustu tvö árin hafa verið ágætistekjur hjá sjómönnum almennt þótt þær séu mjög misjafnar eftir svæðum, eftir bátagerðum og öðru. Sjómennskan er happdrætti. Þannig er veiðimannasamfélagið þó að lögð sé áhersla á það í íslenska kerfinu að gleyma því að við séum veiðimannasamfélag. Við tökum til að mynda peningana þaðan sem þarf til að veita örugga heilbrigðisþjónustu í landinu. Það kemur ekkert beint af himnum ofan, það kemur úr sjónum. Það þarf hörkumannskap til að vinna það, sækja það og skila því.

Löngum höfum við Íslendingar talað um að fiskveiðar væru bara veiðar og vinnsla. En líklega er þriðji þátturinn farinn að skipta hvað mestu máli, markaðssetningin, markaðsvinnan um allan heim sem byggir á því að við getum á réttum tíma hverju sinni skilað afurðum inn á markaðina þannig að við fáum hæsta verð. Aðeins í skjóli þessa öryggis getum við tryggt hæsta verð fyrir hvert einasta kíló af fiski sem við vinnum.

Ef þetta á að vera í einhverjum lausagangi, eins og stjórn landsins er til að mynda í dag, skilar það engu. Þá fer það bara allt í tóma vitleysu. Þess vegna skiptir miklu máli að við tryggjum þetta.

Hinn svokallaði sjómannaafsláttur kom inn í samfélagið á sjöunda áratugnum. (PHB: Sjötta.) Nei, á sjöunda áratugnum, líklega 1963 eða 1964. (Gripið fram í.) Þá kemur þetta inn sem lausn stjórnvalda í ákveðnum kjarasamningum og kerfisbreytingum og hefur verið við lýði síðan, þó með sílækkandi hlutfalli og ómyndarskap. En nú tekur hæstv. ríkisstjórn af skarið, strikar sjómenn út af kortinu og segir þeim að hypja sig frá borði í eðlilegum samanburði við aðra þegna þjóðfélagsins. Þetta er það sem málið snýst um, virðulegi forseti, að við tryggjum til að mynda samræmi við það fyrirkomulag sem er hjá þeim fiskveiðiþjóðum í Evrópu sem við stöndum næst í ferli og samsetningu og sýnum samstöðu í þeim efnum. Verjum þennan rétt sjómanna og tryggjum að þeir verði ekki skildir eftir einir á báti, áralausir úti í ballarhafi, varðandi rétt sem landkrabbarnir hafa tryggt sér fyrir margt löngu og hafa notið ómælt án þess að nokkur hikstaði, án þess að nokkrum dytti í hug að fara að taka hann af þeim. Þannig sitja sjómenn ekki við sama borð og það er okkar, sem erum talsmenn sjómanna og viljum verja rétt þeirra og stöðu, að fylgja því eftir að þeir verði ekki skildir eftir í þessum efnum.

Það mætti tína upp ýmsar tölur í þessum efnum. Til að mynda í Svíþjóð er afslátturinn tvískiptur, 35 þús. sænskar kr. í „närfart“, það er á strandveiðum, og 36 þús. kr. sænskar í „fjärfart“, það er á slóðum flutningaskipa á alþjóðlegum siglingaleiðum. Þetta er svolítið flókið dæmi miðað við lönd, en þeim mun mikilvægara er að þetta sé í góðu lagi hjá þeim löndum þar sem sjómenn skipta verulegu máli. Það er ein sérstaða Íslands að hvergi nokkurs staðar, a.m.k. ekki í Evrópu, skipta sjómenn eins miklu máli og hér á Íslandi. Sjómenn eru burðarásinn í aflgjöf samfélagsins, vaxtarmöguleikum, þreki og þoli, með vinnu sem er utan við hversdagsleika landkrabbans, utan við eðlilegt daglegt aðgengi að menntakerfi, heilbrigðiskerfi, félagskerfi, almennri menningu o.s.frv.

Það hefur stundum verið sagt að sjómannaafslátturinn hafi í rauninni verið greiðsla fyrir það að standa ölduna. Það er ágætismyndlíking því að þeir sem þurfa að standa ölduna og vinna jafnharðan hafa ekki möguleika á að sinna neinu öðru á meðan, hvað þá hugsa um eitthvað annað. Þess vegna skiptir miklu máli að við afgreiðum þetta með sóma.

Á árinu 2008 fengu 6 þúsund sjómenn sjómannaafslátt. Sjómannaafslátturinn nam um 1 milljarði vegna ársins 2008. Til samanburðar fengu 3.875 aðilar greidda dagpeninga, 8,7 milljarða. Þetta sýnir í hnotskurn að sjómenn eru ekki til vandræða í þessu kerfi tölulega fyrir aðeins brot af því sem landkrabbarnir hafa í sinn hlut. Af þeim aðilum sem greiddu dagpeningana á árinu 2008 voru 138 opinberir aðilar sem greiddu samtals 1,5 milljarða. Það er sjálft ríkiskerfið. Það er sjálf jatan. Ég ætla ekkert að fjalla um það hvort í mörgum tilvikum mætti breyta þar um kerfi, taka upp nútímatækni til að sinna samskiptum og fjarskiptum með símafundum, sjónvarpsfundum og öðru. Það er annað mál, en þetta eru tölurnar. Samkvæmt þessu njóta opinberir starfsmenn mikilla fríðinda umfram aðrar starfsstéttir. Að minnsta kosti 18% allra greiddra dagpeninga fara til opinberrar stjórnsýslu, nær 20%.

Svo á að henda sjómönnum fyrir borð. Hvað er að þessu liði? Það er eitthvað mikið að. Það ætti kannski að byrja á því að fara í áfallahjálp og svo einhverja fræðslu um það um hvað málið snýst. Hvað er sjómennska? Við hvaða aðstæður er hún stunduð? Hvað gefur hún? Hvað skiptir hún miklu máli? Þeir virðast ekki hafa áhyggjur af því sem koma heim í kvöldmat á réttum tíma hvern dag, sitja yfir sjónvarpinu hvert kvöld, þegar önnur stétt í landinu, sjómenn, býr í einangruðu umhverfi úti á sjó þar sem er sem betur fer oft góður andi og góð stemning af því að sjómenn gera gott úr hlutunum. Þeir búa samt við þröngan kost á hinu almenna áhugamálasviði sem er síflæði í á Íslandi sem öðrum Evrópulöndum þessi árin.

Það er því einfaldlega sanngjörn krafa að sjómenn njóti áfram þeirra kjara sem þeir hafa haft í áratugi. Annað fæli í sér ójafnræði við aðrar starfsstéttir sem geta nýtt sér dagpeningagreiðslur í formi skattafsláttar.

Sjómenn á Norðurlöndum njóta sjómannaafsláttar. Hið sama á við í öðrum fiskveiðiríkjum eins og Kanada og Nýja-Sjálandi þar sem sjómenn eiga rétt á sérstökum skattafslætti. Fiskveiðiþjóð eins og sú íslenska á að tryggja sjómönnum sínum kjör sambærileg við þau sem tíðkast hjá þeim fiskveiðiþjóðum sem við berum okkur saman við þannig að við skulum taka saman höndum um það og koma þessu í gott lag.

Fiskibátur skilar ekki árangri nema hann sé vel búinn tækjum, öryggi og öllum þáttum sem þarf að horfa til. Starfsstétt sem er lítillækkuð miðað við aðrar stéttir landsins býr hvorki við öryggi né eðlilegt umhverfi eins og hún á skilið. Það er því mikilvægt, virðulegi forseti, að þetta komist í farveg þar sem við klárum þetta og komum þessu í boðlegt ástand þannig að sjómenn megi vel við una.

Að mínu mati eiga íslenskir landkrabbar hvar í stétt sem þeir standa að vera sérstakir baráttumenn og talsmenn íslenskra sjómanna vegna þess að þar sem sjómenn eru svo fjarri hvunndagsþáttum á Íslandi hafa þeir í rauninni enga aðstöðu til að berjast eða svara fyrir sig. Þá eigum við sem erum í landi að hafa manndóm til þess að taka upp málstað þeirra og fylgja honum eftir þannig að þeir sitji við sama borð og aðrar stéttir í landinu og aðrar sambærilegar stéttir í nálægum löndum og þeim löndum sem sérstaklega leggja rækt við fiskveiðar.

Að lokinni umræðu, virðulegi forseti, óska ég eftir því að þetta frumvarp fari til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og fái þar snaggaralega og góða umfjöllun.