139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

tekjuskattur.

275. mál
[16:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að blanda mér ekki mikið í umræður félaga minna hv. þm. Árna Johnsens sem er 1. flutningsmaður að þessu frumvarpi og hv. þm. Péturs Blöndals. Ég ætla hins vegar að leiðrétta eitt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði, kokkurinn er ekki með einn og hálfan hlut, hann er með einn og kvart hlut. Ég þykist vita að það verði gerðar athugasemdir við mig þegar ég kem í mína heimahaga hafi ég ekki leiðrétt þetta.

Það sem við erum að ræða hér er breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Eins og hv. flutningsmaður Árni Johnsen fór yfir eru þetta breytingar sem falla að því að taka aftur upp svokallaðan sjómannaafslátt eins og hann hefur verið kallaður í áratugi.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að það verði notast við sambærilegt kerfi og er í Færeyjum, að færeyskri fyrirmynd getum við orðað það, þannig að þeir sjómenn sem starfa á Íslandi muni þá fá sambærileg kjör og þeir sjómenn sem starfa í Færeyjum. Við getum síðan hugsað og deilt um hvort þetta sé með þessum hætti eða öðrum, en einhverra hluta vegna er það þannig í mörgum öðrum löndum að þeir einstaklingar sem stunda sjómennsku fá skattaívilnun sem felst í sjómannaafslætti. Þau rök eiga að gilda alveg eins hér á landi og alls staðar annars staðar. Það er ekki bara af því bara.

Ég hef starfað nokkuð mörg ár á sjó. Þar starfa menn, og konur að sjálfsögðu, oft við mjög erfið skilyrði. Við skulum líka rifja það upp að meðal sjómanna er mun hærri slysatíðni, hvort sem það eru lítil eða alvarleg slys, en annarra samfélagshópa. Það er kannski þess vegna sem menn eru líka að hugsa þetta svona.

Við skulum heldur ekki gleyma því að sjómenn eru oft og tíðum vikum og jafnvel mánuðum saman burtu frá heimilum sínum. Þegar opinber starfsmaður bregður sér í nokkra klukkutíma út fyrir bæjarmörkin er allt í lagi að hann fái dagpeninga. Við eigum ekki að þrefa um það hvort menn kalli þetta dagpeninga og fari síðan að gera einhverja aðra hluti. Ég er hins vegar mjög ánægður ef menn hugsa út fyrir boxið og koma með hugmyndir. Mér finnst hins vegar alveg með eindæmum að þessi hæstv. ríkisstjórn sem kennir sig alltaf við einhverja norræna velferðarstjórn skuli gera þessa hluti þar sem þetta er alls staðar gert á Norðurlöndunum, menn njóta þar sjómannaafsláttar. Þetta er algjörlega til háborinnar skammar. Svo koma hv. þingmenn og segja: Ja, sjómenn eiga hugsanlega að fara inn í þetta dagpeningaform vegna þess að þeir eru þá allir jafnréttir.

Mig langar að rifja eitt upp, það að sjómenn eru að verða 2. flokks þegnar í þessu landi. Það er bara staðreynd, bæði hvað varðar það að taka af þeim sjómannaafsláttinn og ekki síst skulum við ekki gleyma því að staða öryggismála sjómanna er í dag þannig að því miður er mjög marga daga á ári ekki hægt að bjarga lífum sjómanna. Það er staðreynd mála. Það er ekki hægt að bjarga sjómönnum lendi þeir í slysum fyrir utan 20 mílur þegar vaktaskipan er þannig hjá Landhelgisgæslunni. Hvað kalla menn það? Í gegnum fjárlögin þekkjum við þá umræðu og þær arfavitlausu hugmyndir, sem var hent þar fyrir borð, gagnvart heilbrigðisstofnunum landsins þar sem ráðist var að grunnstoðunum og ætlast til þess að íbúar á landsbyggðinni lytu þeim afarkostum að geta ekki fengið eðlilega heilbrigðisþjónustu. Þá gleymist nefnilega þetta gagnvart sjómönnunum. Það er búið þannig um hnútana núna með fækkun á þyrlum og niðurskurði hjá Landhelgisgæslunni að þjónustan er skert. Þeir einstaklingar sem starfa hjá Landhelgisgæslunni eru að sjálfsögðu allir af vilja gerðir, gera allt sem í þeirra valdi stendur og leggja oft líf sitt að veði til að reyna að bjarga sjómönnum, en sjómenn búa ekki við sama öryggi og fólk í landi. Það er staðreynd málsins, því miður.

Síðan geta menn sett í alls konar samhengi hvernig menn vilja sjá hlutina. Það dapurlegasta í þessum hlutum er að sjómenn skuli ekki geta notið þeirrar öryggisþjónustu sem þeir eiga svo sannarlega skilið. Þeir hafa haldið þessari þjóð á floti alla tíð, skaffað tekjur og haldið lífi í þjóðinni. Ég er ansi hræddur um að fólk kynni því illa ef ekki væri hægt að verða við beiðni fólks sem veikist og þarf að fá sjúkrabíl til að keyra sig á sjúkrahús af því að leiðin væri umfram 40 kílómetra. Við þetta þurfa sjómenn að búa. Þá er ég ansi hræddur um að hér færi allt á annan endann. Svo getur fólk reynt að setja sig í spor fjölskyldna sjómanna sem hafa af þessu að sjálfsögðu miklar áhyggjur. Ég er ansi hræddur um — hef sagt það áður í þessum sal og skal gera það eina ferðina enn — þó að ég voni að svo fari ekki að menn vakni ekki upp af þessum blundi fyrr en það hefur kostað einhver mannslíf. Það hefur nefnilega áður þurft að fórna mannslífum til að stjórnvöld vakni upp við þann aðbúnað og það öryggi sem íslenskum sjómönnum er búið. Það er bara blákaldur veruleikinn, því miður. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvort þeir hafi brugðist við fullyrðingum mínum í utandagskrárumræðunni í fyrra. Þá töldu ýmsir mig vera með nánast eintómt lýðskrum. Ég vona að sjálfsögðu að þetta muni ekki ganga eftir en ætli þeir verði ekki aumir ef það gerist og þegar þeir vakna upp af þessum svefni sem þeir eru í, að það þurfi að fórna mannslífum til að rétta af þennan hlut. Þannig hefur það verið og þannig er það, því miður.

Ég ítreka að ég er ansi hræddur um að ef hinn almenni borgari mundi lenda í svipuðum aðstæðum færi þjóðfélagið á annan endann. Hér er ekki verið að biðja um nein forréttindi fyrir sjómenn. Hér er eingöngu verið að biðja um það fyrir sjómenn sem þeir eiga sannarlega skilið og það kemur fram í þessu frumvarpi hvernig því er háttað. Á árinu 2008 voru sjómenn með rúman milljarð í skattafslátt út af störfum sínum en opinberir starfsmenn, þingmenn og fleiri, ég og aðrir, fengu á árinu 2008 1,5 milljarða, þ.e. 50% meira en íslenskir sjómenn. Svo geta menn deilt um hvað er rétt og hvað rangt í því, menn sem sitja í þægilegu upphituðu húsi í djúpum og þægilegum stólum. Það er allt réttlætið og það er að mínu viti til háborinnar skammar af hæstv. ríkisstjórn að ráðast svona fram gagnvart sjómönnum.

Síðan hafa margir haft orð á því að sumir sjómenn, sumir, ekki allir, hafi um þessar mundir há laun vegna falls krónunnar. Þá skulu menn líka muna að á góðæristímanum á Stór-Reykjavíkursvæðinu þegar þenslan var í botni og gengi krónunnar mjög lágt fengu sjómenn ekki góð laun og þurftu að greiða fyrir það þegar gengi krónunnar var sterkt. Það gleymist nefnilega alltaf, menn hugsa alltaf í núinu. Það kemur fram í þessu frumvarpi og hefur margoft komið fram, m.a. í ábendingum forustumanna sjómannafélaganna og sjómanna á Íslandi, hvað sjómenn búa við skertar aðstæður. Þeir hafa allt öðruvísi aðgang að öllu opinbera kerfinu, til að mynda heilsugæslu, eins og ég rakti áðan. Það er svoleiðis búið um hnútana að það er ekki einu sinni hægt að bjarga sjómönnum við vissar aðstæður sem eru fyrir utan 20 mílur, hjá fiskimannaþjóð. Sjávarútvegurinn er grunnurinn að íslensku samfélagi. Samt er svona búið um hnútana. Það er dapurlegt, virðulegi forseti, að menn skuli gera þetta. En þessu laumuðu þessir vinstri menn, kommúnistar, inn í allan skattahækkanapakkann sinn þannig að því miður varð ekki mjög mikil umræða um þetta mál í öllu óðagotinu í lok árs 2009 þegar menn rumpuðu í gegn á örfáum dögum öllum þessum skattahækkunum í kjölfar afgreiðslu fjárlaga. Þetta týndist því miður of mikið í umræðunni þó að að sjálfsögðu hafi verið vakin athygli á því. Þeir hinir sömu og samþykktu að fella niður sjómannaafsláttinn hjá sjómönnunum blikna hins vegar ekkert við það að þiggja dagpeninga þegar þeir skreppa aðeins út fyrir bæjarmörkin eða fara til útlanda eða hvað sem það er á vegum hins opinbera. Þeir blikna ekki við það og þeir búa ekki við það slæma öryggi að verði þeir fyrir meiðslum eða verða veikir, hvort sem það er lítið eða alvarlegt, jafnvel að líf liggi við, sé ekki hægt að bjarga þeim.

Eins og kemur kannski fram í máli mínu, ég þykist vera nokkur skýrmæltur, er mér mikið niðri fyrir þegar ég fjalla um þessi mál. Ég þekki nefnilega af eigin raun hvernig það er að starfa til sjós. Ég hef því miður lent í því að horfa á sjómenn berjast fyrir lífi sínu og verið þá í landi og ekkert getað gert, ekki frekar en aðrir. Það hefur komið fyrir mig, ekki einu sinni heldur tvisvar, að þurfa að horfa á sjómenn berjast fyrir lífi sínu og það var ekkert hægt að gera nema bíða eftir þyrlunni, ekki neitt þó að allir vildu gera það sem þeir gætu. Samt er svo búið um hnútana núna að það er ekki hægt að verða við því.

Ég vænti þess og hef þá trú í brjósti að menn muni sjá að sér. Ég viðurkenni það, virðulegi forseti. Ég vænti þess að hv. efnahags- og skattanefnd fari mjög vel yfir þetta mál og beri saman við þau kjör sem aðrar starfsstéttir í landinu hafa. Komi menn með einhverjar hugmyndir um það, eins og þeir kalla það að hugsa út fyrir boxið, þannig að menn njóti þá sömu kjararéttinda er það gott og blessað. Ég ætla ekki að slá neitt á það. En gleymum því ekki þegar við fjöllum um það, eins og ég kom inn á, að sjómenn búa ekki við sömu aðstæður og fólk í landi, hvorki varðandi öryggismál, heilsugæslu né svo margt annað. Sjómenn eru vikum og jafnvel mánuðum saman í burtu frá fjölskyldum sínum. Komi eitthvað alvarlegt upp í fjölskyldunni geta sjómenn ekki brugðið sér heim ef þeir eru kannski í túr á frystitogara. Það er bara ekki þannig. Það er þá eitthvað alveg mjög alvarlegt sem gerist ef menn eru settir í land, þ.e. ef slysavarnabátarnir hugsanlega ná í þá ef það eru þá skilyrði og aðstæður til að gera það. Í einu blaðanna sem ég sá í morgun, ég man ekki hvaða blað það var, var einmitt verið að rifja upp að á þessum degi fyrir nokkrum áratugum fórust þrjár áhafnir á togurum. Það er dapurlegt, virðulegi forseti, að við skulum þurfa að ræða á hinu háa Alþingi þann sjálfsagða rétt sjómanna að vera þegnar en ekki 2. flokks þegnar.

Virðulegi forseti. Ég bind miklar vonir við að hv. efnahags- og skattanefnd fari yfir þetta frumvarp með það fyrir augum að ekki verði litið á sjómenn sem 2. flokks þegna. Þeir hv. þingmenn sem samþykktu að afnema sjómannaafsláttinn á sínum tíma gerðu það án þess að blikna en þegar þeir bregða sér sjálfir aðeins af bæ þiggja þeir dagpeninga og aðrar greiðslur sem þeir vilja taka af öðrum sem eiga sannarlega frekar skilið en þeir að fá greiðslurnar.