139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

tekjuskattur.

275. mál
[17:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á tekjuskatti sem lýtur að starfskjörum einnar stéttar í landinu. Hér hefur farið fram umræða af hálfu hv. þingmanna, tveggja af átta flutningsmönnum frumvarpsins, ásamt andsvari hv. þm. Péturs H. Blöndals. Það hefur stundum hvesst eins og gengur og það er ósköp eðlilegt þó að við reynum að sjálfsögðu að gæta hófs í orðavali.

Það (PHB: Ekki hvessti hjá mér.) hefði mátt hvessa meira hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Það gerir það örugglega oftar en við þetta mál sem betur fer. Það sem slær mig hins vegar við þetta mál, og er ástæða þess að ég er meðflutningsmaður að því, er að í grunninn er verið að ráðast að starfskjörum einnar stéttar í landinu, sjómanna, og fjölskyldum þeirra því að sérstaða starfsins umfram önnur hér á landi er allveruleg. Þeir eru bundnir mikilli fjarveru frá heimili. Eins og þetta liggur fyrir, og kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar áðan, þá var þessu laumað inn í skattbreytingar sem unnar voru fyrir síðustu áramót. Það er raunar háðulegt fyrir vinstri stjórnina í landinu, sem maður hefði ætlað að væri málsvari vinnandi stétta, að hún af öllum ríkisstjórnum skuli knýja málið fram með þeim hætti sem raun bar vitni í dag. Það segir mikið til um vinstri menn á Íslandi í dag. Þetta eru oft og tíðum opinberar blækur í hrönnum sem gefa lítið fyrir uppruna sinn og hreyfingarinnar sem þeir starfa fyrir, þ.e. vinstrimennskuna sem þeir hafa hingað til álitið málsvara verkalýðsstéttanna á landinu. Það er sem betur fer að renna upp fyrir mönnum að svo er ekki.

Besti málsvari vinnandi stétta á sviði stjórnmálanna eru flokkar og stjórnmálastefnur sem vinna að því að framgangur atvinnulífsins í landinu verði með eðlilegum hætti. Síðustu missiri hafa fært okkur heim sanninn um það hvaða stjórnmálastefnur bera það merki á lofti. Að þessu leyti harma ég að ráðist sé að starfskjörum þessarar stéttar á þennan hátt. Þetta snýr ekki eingöngu að persónuafslættinum sem hér er lagður af, sem er skattafsláttur eins og hefur komið fram í umræðunni, heldur ekki síður að breytingum sem gerðar voru á persónuafslættinum í skattinnheimtu ríkissjóðs á síðasta ári. Þar var lögum um persónuafsláttinn breytt á þann veg að hann væri ekki lengur færanlegur á milli hjóna.

Hvaða starfsstétt snertir breytingin verst? Jú, sjómannsfjölskyldur. Af eðli starfsins leiðir að svo er. Þrátt fyrir kjaraskerðinguna sem þessi starfsstétt varð fyrir þá ganga menn lengra. Ég get tekið undir þau sjónarmið, svo maður láti alla njóta sannmælis í því efni, hv. þm. Péturs H. Blöndals að það er sjálfsagt mál að ræða breytingar í þessum efnum. En ég mótmæli því harðlega að ein stétt manna sé tekin út fyrir sviga með þeim hætti sem hér er gert. Það er ekki nokkur heiðarleiki við þá gjörð. Af sjálfu leiðir að menn munu mótmæla því hástöfum.

Það er ekkert sjálfgefið hverjir stunda sjóinn. Það er heldur ekki sjálfgefið þó að fólk sæki sjó og kjósi sér það að lífsstarfi að það henti öllum. Því síður er samasem-merki á milli kjara sjómanna alls staðar, alltaf og alla tíð. Það eru ekki allir milljónamenn á sjó, það er langur vegur frá því. Sjómenn detta oft og tíðum niður í það að vera með lögboðna tryggingu. Þeir þurfa með sama hætti að hafa jafnmikið fyrir starfi sínu. Umræðan er hins vegar öll um það, eins og t.d. kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals áðan, að menn séu með einhvern lúxuskokk um borð. Ég hef verið á fleiri en einu skipi þar sem kokkurinn gekk til allra starfa um borð og honum var spýtt út við verk eins og öllum öðrum áhafnarmeðlimum. Hér var dregin upp sú mynd að þessi starfsmaður sæti bara um borð í sínum stól og eldaði lúxusrétti á fullu kaupi. Sem betur fer hefur hann þóknun fyrir sitt starf. (Gripið fram í.) Hann þarf að fæða marga svanga menn sem gera miklar kröfur um orkuríkt fæði. Stundum hefði mátt vera minna feitmeti í því en það er önnur saga.

Það vil ég segja í umræðunni um persónuafslátt sjómanna að hún hefur oft verið broguð mjög og slitin úr samhengi, oftast nær tengd því að sjómenn væru hálaunastétt sem væri gerður greiði umfram aðrar vinnandi stéttir í landinu, væru á sérkjörum. Hér hefur verið farið ágætlega yfir það hver þau eru en ég vil ekki síður halda því fram að Ísland þurfi á góðri sjómannastétt að halda. Það eru gríðarleg verðmæti sem þessi störf skapa fyrir íslenskt þjóðarbú og við erum í samkeppni við önnur lönd um vinnuafl á þessu sviði ekki síður en öðrum. Árás með þessum hætti að starfskjörum einnar stéttar veikir stöðu landsins í samkeppni um hæft fólk til þessara starfa.

Menn koma máli sínu misjafnlega fram. Ég vil leyfa mér að vitna í ályktun sem Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi gerði á aðalfundi sínum undir lok árs sem svo undarlega vill til að hefur ekki ratað víða í fjölmiðla. Af hvaða ástæðum skyldi það svo sem vera? Jú, einfaldlega vegna þess að menn gefa sér að málið eigi að þegja í hel. Þeir mótmæla harðlega afnámi sjómannaafsláttarins, 5% útflutningsálagi og vanvirðingu í garð atvinnusjómanna og atvinnuútgerðarmanna. Ég leyfi mér að vitna í þessa ályktun sem mér finnst fyllilega þess virði að efnahags- og skattanefnd taki til umræðu þegar málið kemur þar til umfjöllunar.

Aðalfundur þessa stéttarfélags spyr hvort íslensk þjóð viti að íslenskir sjómenn þurfa að vinna einum til tveimur mánuðum lengur á sjó fjarri fjölskyldum sínum til að vinna upp sjómannaafsláttinn. Gera menn sér grein fyrir því? Það þýðir starfskjaraskerðingu sem nemur einum til tveimur mánaðarlaunum. Veit íslensk þjóð að sjómaður í Vestmannaeyjum tapar 500–900 þús. kr. á ári vegna kvótaálagsins? Veit íslensk þjóð að sjávarútvegur er eina auðlindin sem er sérsköttuð? Veit íslensk þjóð að vinna er tekin af atvinnusjómönnum fyrir hina svokölluðu strandveiðisjómenn? Veit íslensk þjóð að sjómenn borga skatta af sínum matarpeningum? Veit íslensk þjóð að sjómannaafsláttur í Noregi er 3,2 millj. kr.? Veit íslensk þjóð að sjómannaafsláttur á Íslandi var 360 þús. kr. árið 2010? Veit íslensk þjóð að sjómenn hafa ekki sama aðgang að heilsugæslu og aðrir landsmenn? Raunar hefur sá þáttur málsins verðið gerður að umræðuefni hér og ég tel enga ástæðu til að bæta við það en það eru fjöldamargir aðrir þættir í íslensku samfélagi sem þessi starfsstétt nýtur ekki sem skyldi einfaldlega út frá eðlis starfsins.

Með því að vera meðflutningsmaður á þessu máli mælist ég til að tekið verði tillit til sjónarmiða sem ríkja í garð sjómannastéttarinnar. Við höfum fulla þörf fyrir það sem íslensk þjóð að hafa öflugt fólk við vinnu í þessum geira atvinnulífsins.