139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

tekjuskattur.

275. mál
[17:32]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var komin svo rífandi stemning í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals að maður beið bara eftir því að hann drægi upp sjóhattinn og setti á kollinn. (Gripið fram í.) Stemningin sneri að því þegar hann vann í síldarbræðslunni og sá til hafs.

Það er eitt atriði sem hv. þingmaður sagði sem ekki var skynsamlegt. Hann sagði: Útgerðin getur vel borgað sjómannaafslátt. Í fyrsta lagi eru sjómenn upp á hlut. Menn tala ekki svona ef þeir eru vanir og hafa reynslu og þekkingu. Ef útgerðin ætti eitthvað aflögu væri ugglaust tekin meiri áhætta í að gera við skip og lagfæra en það er doði í öllu. Það er doði í öllum vélsmiðjum landsins og allri landvinnu vegna sinnuleysis og stjórnleysis hæstv. ríkisstjórnar. Það er ekki á það bætandi þegar hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni leggja þessu lið með skattahækkunartillögum á útgerðarmenn.

Þetta verðum við að vanda og skoða ofan í kjölinn. Það er engin ein leið rétt. En við hljótum að þurfa, hv. þingmenn, að miða kjör sjómanna á Íslandi við aðstæður og kjör sjómanna í Evrópuríkjum. Það er eðlilegt og ekkert að flagga því hvort það heiti dagpeningar eða tekjuafsláttur. (Forseti hringir.) Þetta þarf að vera kerfi sem gildir og er samsvörun í.