139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

311. mál
[18:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir vænt um að heyra hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur tala um áhrif þingmanna. Að sjálfsögðu er þingið að fjalla um þetta mál. Það er þingið sem samþykkir þessar tillögur, breytingartillögur, og getur þá gert að lögum þær breytingar sem því finnst vera skynsamlegar.

Varðandi það hvort hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sveigist til hinnar eða þessarar áttarinnar vil ég minna á afgreiðsluna á aðildinni að Evrópusambandinu sem nokkuð skiptar skoðanir voru hér um. Þar greiddu menn atkvæði þvert um hug sér og hef ég margoft nefnt dæmi um það þar sem menn sögðu Evrópusambandið vera slæmt sögðu þeir já. Ég minni á að sumir ráðherrar sem þá voru í ríkisstjórn lýstu því yfir að þeir væru á móti því máli sem var þó samþykkt og þeir greiddu atkvæði með. Sveigjanleikinn er því mjög mikill en ég hugsa að þegar skynsemin kallar og menn standa frammi fyrir því að þurfa kannski að skera minna niður eða skattleggja minna og fái í staðinn straumlínulagaðri stjórnsýslu á stofnunum munum við nú velja það og hlíta skynseminni. En því miður er margt sem bendir til þess að hæstv. ríkisstjórn sé ekki alltaf að fara skynsamlegustu leiðina.