139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

útgáfa vegabréfs til íslensks ríkisborgara.

[10:38]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin en ekki náðu þau langt. Ég leyfi mér að hafna því að ekki hafi staðið á innanríkisráðuneytinu eða undirstofnunum þess í málinu. Ef það hefði ekkert strandað á stjórnsýslunni, í ráðuneyti hæstv. ráðherra, þá væri barnið löngu komið hingað heim. Það er íslenskur ríkisborgari og því var veittur íslenskur ríkisborgararéttur þann 18. desember sl.

Nú er 27. janúar og ástæðan fyrir því að barnið er ekki komið hingað heim ásamt foreldrum sínum er sú að íslensk stjórnvöld hafa ekki gefið út vegabréf fyrir barnið þrátt fyrir að það sé íslenskur ríkisborgari, sé skráð í þjóðskrá og hafi þar kennitölu.

Það liggur fyrir fæðingarvottorð í málinu. Þar kemur fram að hinir íslensku foreldrar eru tilgreindir sem foreldrar barnsins (Gripið fram í: Það er búið að gefa það út.) og það þarf ekkert að spyrja indversk stjórnvöld um það hver fari með forræði barnsins. (Forseti hringir.) Við hljótum að gera ráð fyrir því fyrir fram að það fæðingarvottorð sem stjórnvöld gefa út gildi samkvæmt efni (Forseti hringir.) og það er alger óþarfi fyrir íslensk stjórnvöld að fara að óska skýringa á (Forseti hringir.) hvort það sé gert lögum samkvæmt. Ég skora á hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að leysa málið nú þegar, til þess hefur hann valdheimildir og getur (Forseti hringir.) gert það í krafti síns embættis.