139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

svör sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við spurningum ESB.

[10:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þessi spurning hv. þingmanns er á miklum misskilningi byggð. Í fyrsta lagi eru engar samningaviðræður í gangi. Í öðru lagi er utanríkisráðherra ekki í hlutverki neins ritskoðanda og í þriðja lagi var svörum sem bárust til utanríkisráðherra að engu leyti breytt.

Það er alveg ljóst að í þessari rýnivinnu er ekki um það að ræða að skilað sé neinum skriflegum svörum. Hins vegar held ég að ég fari með rétt mál þegar ég segi að lagðar hafi verið fram á íslensku yfirlýsingar varðandi tiltekin atriði. Það er fullt samræmi að ég tel á milli mín og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessu efni. Ég fékk aldrei neitt formlegt erindi frá hæstv. ráðherra. Hins vegar bárust í ráðuneytið ákveðin skrifleg svör við tilteknum spurningum sem talið var að mundu koma fram. Ég geri engar athugasemdir við þau svör eins og þau urðu endanleg af hálfu hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Rétt er þó að greina frá því að í upphafi, eins og ég sá þau svör, var um að ræða að einu leyti staðhæfingu sem í reynd var úr takti við veruleikann og var heldur ekki í samræmi, að ég taldi og fleiri, við þann leiðarvísi sem er að finna í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar.

Það sem hér er um að ræða er hvenær tilteknar breytingar á lögum og hugsanlega stofnunum ættu að taka gildi. Það er algerlega ljóst að ég og hæstv. ráðherra erum sammála um það og sú yfirlýsing verður gefin í dag gagnvart Evrópusambandinu að það gerist ekki nema fyrir liggi jáyrði af hálfu íslensku þjóðarinnar. Um það erum við alveg sammála.