139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

svör sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við spurningum ESB.

[10:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra segir að enginn ágreiningur sé á milli hans og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessum efnum. Ég er ekki viss um að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði tilbúinn til að kvitta fyrir það.

Það sem hæstv. utanríkisráðherra er að segja okkur, hann var að reyna að halda því fram að ekki hafi verið lögð fram skrifleg svör við tilteknum spurningum. Það liggur hins vegar fyrir að unnin voru skrifleg svör og þau voru lögð fram. Hins vegar var hluta af þeim spurningum sem lagðar voru fyrir íslensk stjórnvöld svarað munnlega og ég spurði hvers vegna það hefði verið. Var þetta að einhverju leyti feimnismál? Var óskað eftir því að þau svör væru síðan send skriflega? Hæstv. ráðherra svaraði þessu ekki og hæstv. ráðherra verður þá að útskýra það. (Utanrrh.: … ekki óskað eftir því.) Var ekki óskað eftir því af hálfu Evrópusambandsins? Þá liggur það þó alla vega fyrir. En ef hæstv. ráðherra vill staðfesta það að eingöngu hafi verið flutt munnleg skilaboð (Forseti hringir.) … væri gott að fá það staðfest en það er í ósamræmi við þær upplýsingar sem ég hef.