139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

íslenskur landbúnaður og ESB.

[10:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta voru áhugaverðar umræður. Ég spurði hv. formann utanríkismálanefndar út í þetta sama mál í gær og þá kom fram að tveimur spurningum hefði ekki verið svarað skriflega, öllum öðrum hefði verið svarað skriflega. Því spyr ég enn og aftur og nú gengur ekki, hæstv. utanríkisráðherra, að mala eins og köttur um hið evrópska faðmlag heldur er nú komið að ögurstundu. Nú er að segja satt og rétt frá.

Nú er verið að tala um hagsmuni Íslendinga í samningaviðræðum, um það hverju er verið að flagga, um hvað á að semja í anda þeirra skilyrða sem hér voru samþykkt sumarið 2009 í meirihlutagreinargerð og þingsályktun sem hér var samþykkt. Hverju var flaggað? Af hverju í ósköpunum er tveimur spurningum ekki svarað skriflega en öllum hinum 50 eða 90? Hvað stóð í þessum spurningum? Um hvað var spurt og hverju var svarað? Í anda þeirrar þingsályktunartillögu sem hér var samþykkt kemur m.a. fram að hæstv. ráðherra skuli gefa skýrslu reglulega og það skuli hafa samráð við allar fagnefndir þingsins sem og utanríkismálanefnd. Þess vegna gengur ekki að koma hér og fara í kringum þetta eins og köttur í kringum heitan graut heldur verður að segja sannleikann.

Einnig hefur komið fram á fundum sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að á vegum utanríkisráðuneytisins, væntanlega frekar en aðalsamninganefndarinnar, hefur verið unnið að öðru máli sem snertir þessar viðræður, tollvernd íslenska landbúnaðarins, sem er gríðarlega mikið atriði og eitt af þeim atriðum sem er verið að flagga. Við höfum heyrt ávinning af því að unnin hafi verið skýrsla um með hvaða hætti Ísland gerir kröfu um þetta. Þá skýrslu höfum við ekki séð og ég geri eiginlega þá kröfu að ráðherrann upplýsi okkur um það hvort hún verði ekki lögð fram til fagnefndanna til að við getum fylgst með því (Forseti hringir.) hvað er verið að tala um af hálfu ríkisstjórnarinnar, hvort sem það er munnlegt eða skriflegt.